144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:31]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að halda áfram þar sem frá var horfið. Nú veit ég að þingmenn og forsætisnefndin hafa verið að fara og heimsækja þjóðþing annarra landa í gegnum tíðina. Ég held því að það væri mjög gott að við mundum fá meiri upplýsingar um það hvers þeir verða áskynja í þessum ferðum sínum. Ég trúi því ekki að það sé raunverulega þannig, tökum bara Norðurlöndin, að þar sem mál eru mjög umdeild, auðvitað eru umdeild mál í öllum þjóðþingum, að formenn flokka og ráðherrar geri ekkert í því, setjist ekki niður með stjórnarandstöðu og leiti leiða til sátta. Eru einhver dæmi um það? Mér finnst þetta með svo miklum ólíkindum að ég — er hægt að særa þessa menn hingað inn í þingsal til að ræða við okkur?

Virðulegi forseti. Ég verð eiginlega að ætlast til þess að forseti virki sem einhvers konar sáttasemjari í málinu, kalli til fundar og láti menn og konur setjast niður til að ræða þetta og komast að niðurstöðu. Þetta gengur ekki. — Hef ég lengri tíma?

(Forseti (SJS): Ég hygg að tímanum hafi verið lokið, en það er eitthvert vesen á mæliverkinu.)