144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:50]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Að vilja fara að ferlinu tekur ekki af manni réttinn til þess að rökræða einstaka kosti. Það er ekki þar með sagt að þó að maður fallist á ferlið eða fallist á verklagið sé maður endilega sáttur við niðurstöðuna. Maður á að vera tilbúinn til þess að rökstyðja það og ræða það. Ég áskil mér rétt til þess að gera það eftir sem áður. Og af því að við erum að tala um Hvammsvirkjun þá er ég þeirrar skoðunar að það sé of fljótt að fara í það að virkja þar. Ég er raunar þeirrar skoðunar, eins og fram kom í sérbókun Þóru Ellenar Þórhallsdóttur við niðurstöðu við niðurstöðu verkefnisstjórnar, að með því að plokka út einn kost eins og gert var þar eftir bréf frá hæstv. ráðherra, virði maður í raun ekki að fullu aðferðafræði rammaáætlunar sem snýst alltaf um það að raða mörgum kostum og bera þá saman.