144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að engin lagaleg óvissa sé um það sem gerðist á síðast kjörtímabili, alla vega samkvæmt gögnum sem ég hef komist í og eftir mínum besta skilningi á þeim. Núna er hins vegar uppi annar ágreiningur sem er réttlættur með því. Menn segja fullum fetum að hér sé verið að gera nákvæmlega það sama og gert var á síðasta kjörtímabili, sem er auðvitað ekki rétt ef maður skoðar gögnin af sanngirni, en menn segja þetta samt sem áður. Eitthvað hljótum við að geta gert til þess að menn telji sig sátta.

Ég velti sérstaklega einu fyrir mér, sem kemur að mig minnir fram í nefndaráliti 2. minni hluta atvinnuveganefndar á 141. þingi. Það varðar þá hugmynd að hafa aukanýtingarflokk sem er einhvers konar nýtingarbiðflokkur, ég hef ekki betra orð, sem er þá sú staða sem þessir kostir gætu verið í á meðan þeir eru í limbóinu milli biðar og (Forseti hringir.) nýtingar. Ég velti fyrir mér hvernig hv. þingmanni lítist á slíkan kost.