144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:00]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég man eftir þessari umræðu og mér féll ekki sérstaklega við þá hugmynd. Hún felur í sér að netið sé þéttriðnara en það er núna, í staðinn fyrir þrjá flokka séu menn með fleiri, þeir gætu líka verið með verndarbiðflokk, og hvað væri þá í honum? Við værum í sjálfu sér komin með enn þá fleiri álitamál undir.

Ég vil taka undir það sem hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra Sigrún Magnúsdóttir hefur sagt. Ég er svo innilega sammála henni og held að það stafi að sumu leyti af því að hafa verið innanbúðar í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Það er mjög mikilvægt að núgildandi löggjöf fá eina umferð óáreitt, að lögin eins og þau eru núna fái að sigta í gegn eina umferð af afurð verkefnisstjórnar til ráðherra sem fái síðan afgreiðslu í þinginu og að því loknu verði sest yfir það í þverpólitísku samráði að meta kost og löst á löggjöfinni, vegna þess að sannarlega munu koma upp álitamál sem er vert að skoða betur.