144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:21]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Ég tek algjörlega undir með hv. þingmanni. Þessar spurningar eru mjög mikilvægar og í rauninni það sem við ættum að vera að ræða. Þetta er óskiljanlegt. Ef þeir voru svona rosalega ósáttir við ferlið og það sem gerðist á síðasta kjörtímabili, af hverju lögðu þeir ekki fram mál, breytingartillögu við lögin, ný lög eða eitthvað? Ég held að þeir hafi ekki alveg séð fyrir hvað þeir voru að gera.

Annað í þessu máli er að það er nú í algjörum hnút og virðist vera mjög erfitt að ná einhverri sátt. Ef meiri hlutinn, stjórnarherrarnir, vilja ekki hitta minni hlutann þá flækir það málin verulega. Er hv. þingmaður með einhverja lausn á því hvernig er hægt að særa í salinn hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra sem bera mikla ábyrgð á þessu? Það hlýtur að vera á þeirra ábyrgð að leita lausna í þessu máli. Við höfum alltaf sagt að við séum tilbúin til að setjast niður, en hvernig særum við mennina í salinn?