144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:31]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir fína ræðu. Hv. þingmaður kom að meginefni til inn á þá prinsipphlið í umræðunni sem snýr að rammaáætlun um vernd og nýtingu auðlinda sem því sáttaferli sem allir þingflokkar voru á sínum tíma sammála um að væri það verkfæri sem við þyrftum á að halda til að ná sátt um jafnvægi nýtingar og verndar, um það hvernig við, ef ég orða það frekar, hámörkum arðinn af auðlindum okkar til orkunýtingar.

Hv. þingmaður vék jafnframt að því að hann væri ekki á móti einstökum virkjunarkostum efnislega, hvorki með né á móti öllum. Hv. þingmaður lagði áherslu á það að útkljá þetta ferli, rammaáætlun, áður en við ræðum það mál sem er á dagskrá, þessa virkjunarkosti væntanlega sem koma fram í breytingartillögu hv. atvinnuveganefndar.

Nú vil ég víkja að spurningunni. Nú voru allir þessir kostir í nýtingarflokki í rammaáætlun 2 og færðir þaðan í biðflokk. Ég velti fyrir mér þeirri leið sem hv. þingmaður var að benda á, að við ættum að taka þetta mál af dagskrá og útkljá þessar formkröfur, þá hlið á rammaáætlun, sem sáttaferli áður en við getum farið að ræða þessa kosti. Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hann sér það nákvæmlega fyrir sér að aðskilja þessa þætti, vegna þess að búið er að þaulkanna og fara ítarlega yfir þessa virkjunarkosti.