144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er fullt tilefni til að minna á að við erum í reynd ekki að nýta tímann til að laga það sem laga þarf eða ræða það sem ræða þarf í íslensku samfélagi núna. Hér fyrir utan eru smátt og smátt að leysast upp mótmæli sem ég þori ekki að fullyrða hversu fjölmenn voru en vissulega voru þar þúsundir manna, svo mikið er víst. Fjölmiðlar komast sjálfsagt að því bráðlega hversu margir voru þarna en þetta var alla vega fullur Austurvöllur og mikil læti sem heyrðust inn í þingsal. Ástæðan er einföld: Óánægja með stjórnvöld. Það er eitt af vandamálunum sem steðja að hinu háa Alþingi og ríkisstjórn nútímans, burt séð frá þeim tilteknu vandamálum sem við höfum rætt hér, eins og kjaradeilurnar og fleira. Það er full ástæða fyrir þetta þing að fara að taka sig saman í andlitinu og ræða fundarstjórn forseta í víðara samhengi, í lengri ræðum í sérdagskrárlið og kannski taka með lýðræðisumbætur, stjórnarskrána og ýmislegt fleira sem er löngu kominn tími til að við ræðum á hinu háa Alþingi.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.