144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:57]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það eru fimm tímar þar til hjúkrunarfræðingar fara í verkfall. Það verkfall kemur ofan í nær átta vikna verkfall hjá ýmsum stéttum innan heilbrigðiskerfisins og inn í heilbrigðiskerfi sem er enn ekki búið að ná sér að fullu eftir læknaverkfall síðasta haust.

Grafalvarleg staða er uppi þegar kemur að heilbrigðiskerfinu. Ég geri ekki lítið úr alvarleika þess þegar matvælaframleiðsla fer úr skorðum eða flutningur á ferðamönnum en þegar heilbrigðiskerfi þjóðarinnar er undir þá mundu nú ýmsir segja að ástæða væri til að setjast niður og jafnvel tala saman og velta því fyrir sér hvort Alþingi geti gert eitthvað til að koma í veg fyrir alvarleg slys í heilbrigðiskerfinu.