144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:59]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil gera athugasemd við fundarstjórn forseta. Er það rétt sem ég heyri að þingflokksformenn séu ekki búnir að setjast niður með forseta til að fara yfir þau mál sem á að klára áður en sumarfrí skella á? Er það rétt að starfsáætlun hafi verið tekin úr sambandi fyrir helgi og það viti enginn hvenær við eigum að ljúka störfum? Þetta getur náttúrlega ekki gengið og það getur ekki gengið að hér sé sama málið sett á dagskrá dag eftir dag þegar öllum er ljóst að það fer ekki í gegn með þeim umdeildu breytingartillögum sem verið er að ræða? Það vita allir og ég geri ráð fyrir að forseta sé það ljóst og þess vegna þarf forseti að setjast niður með þingflokksformönnum strax og fara yfir málið, hvernig eigi að lenda þeim brýnu málum sem fyrir eru.