144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:21]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var eitt af þeim málum sem voru mikið rædd, hvernig hægt væri að tryggja aðkomu þingsins. Það náðist að koma því til leiðar að þetta verður tekið inn til þingsins og þingið fjallar um það. Það var ekkert sjálfgefið í upphafi. Ef lagt yrði til af Landsneti að fara með línu yfir Sprengisand, sem dæmi, yrði það ekki afgreitt sisona nema með aðkomu þingsins. Það er alveg hárrétt og það er eitt af þeim atriðum sem ég er ánægð með að við náðum fram. En ég held að það sé ekkert öryggi í því í sjálfu sér hvernig það mál mundi enda, sá slagur er eftir. Þingið fengi þetta til umfjöllunar en á endanum yrði það afgreitt á einhvern hátt og mér finnst ekki liggja ljóst fyrir hvort þingið hefði einhver tæki til að stoppa slíkt af.

Þingið gæti vissulega vakið athygli á þessu máli en að lokum er það meiri hluti þingsins sem afgreiðir þá þingsályktunartillögu sem ráðherra flytur. Það er eins og með önnur mál, því lýkur þá með atkvæðagreiðslu.