144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:23]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Mér finnst mikilvægt að það komi fram að það er okkar mat að búið sé að tryggja að slíkar ákvarðanir, þegar kemur að lagningu raflína yfir miðhálendið, komi hingað inn í þingið.

Þá var málið líka gagnrýnt af okkur þegar það kom hingað til umræðu í þingsal, að ekki væri búið að tryggja nægilega aðkomu sveitarfélaga, þ.e. að menn þyrftu að gera skipulagsvaldi sveitarfélaga hærra undir höfði og komið var til móts við það að verulegu leyti.

Síðan var það líka gagnrýnt — ég er nú að rifja þetta upp — að í næsta þingmáli hér á eftir, sem er tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, er fjallað um umhverfisstefnu og það var ekki nægilega tryggt, þegar kom að kerfisáætlunum, sem við ræðum hér, að menn væru að horfa til umhverfissjónarmiða. Menn eru að vísa í þingsályktun sem stjórnvöld hafa lagt fram um lagningu raflína þar sem fjallað er um umhverfisstefnu en að vissu leyti hefur líka verið komið til móts við það þannig að það er verið að veita umhverfissjónarmiðum aukinn sess. Að okkar mati er það vel og þess vegna höfum við stutt það meirihlutaálit sem hér er til umfjöllunar.