144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:27]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fara fáeinum orðum um þetta mál en mun ekki lengja umræðuna að þarflausu og ætla þess vegna að láta orð falla sem eiga bæði við um þetta mál og málið sem er næst á dagskrá sem er þingsályktunartillagan um stefnumörkun að þessu leyti.

Þetta mál er skólabókardæmi um mikilvægi þinglegrar umræðu og sýnir árangurinn af því sem stundum er kallað þras í þinginu eða málþóf. Við áttum hér við 2. umr. ítarlega umræðu um málið og varð þá ljóst að grundvallarágreiningur var um nokkra þætti málsins. Við óttuðumst að í málinu eins og það kom af hendi stjórnarmeirihlutans til 2. umr. væri verið að leggja upp framtíðarsýn um tröllvaxnar loftlínur. Það voru engar hömlur á því hvað Landsnet gat lagt til grundvallar við tillögugerð um uppbyggingu raforkukerfisins og gríðarleg hætta var á að kerfið yrði gert allt of stórt úr garði með tilheyrandi afleiðingum fyrir ásýnd landsins.

Við gagnrýndum líka þá staðreynd að verið væri að flytja gríðarleg völd frá sveitarfélögum til aðila úti í bæ, sem Landsnet óneitanlega er, og við gagnrýndum líka þá staðreynd að þingið á hvergi að koma að máli og það væru engar hömlur við því í sjálfu sér hvað Landsnet gæti sem flutningsfyrirtæki gert tillögur um. Jafnframt tengdist þetta þeirri þingsályktunartillögu sem hér verður rædd á eftir að því leyti að í henni er verið að setja stuðla og viðmið um kostnað sem leggja á til grundvallar þegar lagt verður mat á hvort raflínur eigi að leggjast í jörð eða ekki. Við óttuðumst að með því væri verið að takmarka möguleikana til að setja sem mest af raflínum í jörðu.

Á málinu eins og það er nú hafa orðið góðar og miklar breytingar. Það er árangur af góðri og málefnalegri stjórnarandstöðu. Það er ekki þannig að við getum breytt í grundvallaratriðum því hvernig stjórnarmeirihlutinn horfir á hlutina eða leggur málin upp, en við getum samið um lagfæringar á málum og náð víðtækri samstöðu um meginlínurnar. Meiri hlutinn ræður auðvitað á endanum og hefur til þess afl atkvæða en við höfum lagfært alvarlega agnúa á þessu máli, gert það viðunandi. Ef málið hefði verið lagt upp af hendi okkar í stjórnarandstöðunni hefði það áreiðanlega litið öðruvísi út. Við í Samfylkingunni höfum samþykkt stefnu um þjóðgarð á miðhálendinu og slíka stefnumörkun væri örugglega að finna í tillögunum ef þær hefðu komið frá okkar hendi. En það er mikill árangur ef hér hefur náðst samstaða um það sem meiri hlutinn skrifar upp á og þess vegna tökum við þátt í afgreiðslu meiri hluta nefndarinnar að búið er að tryggja aðkomu Alþingis að uppbyggingu kerfisins, búið er að tryggja það, eins og hér hefur komið fram, í orðaskiptum milli hv. þingmanna að ekki verður hægt að byggja Sprengisandslínu án aðkomu Alþingis. Einnig er búið að tryggja að sveitarfélögin fái betri umgjörð utan um skipulagsvald sitt. Jafnframt eru settar hömlur við þeirri bókstafstúlkun sem svolítið gætti áður að allir valkostir í nýtingar- og biðflokki ættu að vera til grundvallar ákvörðunum um stærð raforkuflutningskerfisins og lögð er áhersla á það í nefndaráliti með hvaða hætti flutningsfyrirtækið þurfi að taka tillit til ólíkra kosta þegar verið er að meta hvort leggja eigi raflínur í jörð eða loftlínur.

Þá er að síðustu tryggt að ákvarðanir séu kæranlegar og þar með útbúið málið með þeim hætti að tilvísun til Árósasamningsins stenst að því er varðar möguleika á að kæra stjórnvaldsákvarðanir til sjálfstæðra og óháðra úrskurðarnefnda og þaðan til dómstóla.

Ég vil aðeins í tengslum við þetta gera að umtalsefni þær ábendingar sem Landvernd hefur sett fram upp á síðkastið um að efnisrök séu fyrir því að staldra við í þessu máli og ég get að sumu leyti tekið undir það. Landvernd hefur vakið athygli okkar á nokkrum nýjum úrskurðum; í fyrsta lagi úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál sem gerir Landsneti að hlíta þeirri ákvörðun Skipulagsstofnunar að meta í umhverfismati jarðstreng á hlutum leiðar sem er hluti af meginflutningskerfi raforkukerfisins. Er mikilvægt að hafa það í huga að þessi stefnumörkun liggur nú fyrir og að þess vegna verði tilvísunin til kostnaðarstuðlanna í þingsályktunartillögunni sem hér verður rædd á eftir ekki túlkuð með þeim hætti að hún feli í sér þrengingu á þessari skyldu af hálfu flutningsfyrirtækisins. Það er líka vert að hafa í huga að í ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA frá því 7. maí kemur fram að Landsnet muni leggja 9 kílómetra langan jarðstreng að Helguvík í tengslum við raforkusamning Landsvirkjunar og flutningssamning Landsnets við United Silicon í Helguvík. Það kippir algerlega fótunum undan þeirri staðhæfingu sem oft hefur heyrst í almennri umræðu að sérstaka lagaheimild þurfi til að heimila Landsneti að leggja streng í jörð.

Ég nefni þetta hér vegna þess að viðhorfin eru að breytast meðan við erum að ræða þessi mál hér í þingsölum. Viðhorfið til mikilvægis þess að ganga vel um landið, verðmætin sem í víðernunum eru falin vaxa dag frá degi og frá missiri til missiris. Þegar við upplifum slíka sprengingu í ferðaþjónustu eins og við höfum gert á síðustu árum er óhjákvæmilegt að við endurmetum verðmætin sem í ósnortnum víðernum búa og það er jákvætt að sjá að úrskurðarnefndin skuli með þessum nýlega úrskurði hafa verið að leggja ríkari skyldur en áður hefur verið gert á Landsnet til að meta jarðstrengi þegar verið er að leggja upp áætlanir um varðandi flutningsnetið í heild. Ég held að það eigi að vera stefna okkar allra að jarðstrengir séu alvörukostur og það þurfi sérstaklega rík rök til að víkja frá því að þeir séu metnir sem valkostur við loftlínur í hverju einasta tilviki. Auðvitað kann að vera að verið sé að leggja um þannig jarðfræðilegar aðstæður yfir til dæmis falleg hraun þar sem augljóst er að jarðstrengir valda meira tjóni en loftlínur, en almenna reynsla okkar er sú að loftlínurnar valda meira umhverfistjóni. Ég vil þess vegna undirstrika að málið eins og það stendur nú er jákvætt. Það er búið að sníða af því verstu agnúana sem upp komu í 2. umr. málsins. Það mundi auðvitað líta öðruvísi út ef við hefðum haft stjórnarmeirihlutann með höndum, en ég er sáttur við þann árangur sem náðst hefur í samtali og samráði um þetta mikilvæga mál og í því felst leiðsögn um önnur mál, um rammaáætlun og önnur þau ágreiningsmál sem eru til meðferðar í þinginu. Það er stundum bara ágætt að setjast yfir mál og leita sameiginlegrar niðurstöðu.