144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrra atriðið með eignarnámið þá hef ég ekki haft tíma til að lesa alla reifun í kringum það, en ég þykist merkja það af nokkrum tilvikum sem hafa verið að koma upp að undanförnu að menn séu orðnir kröfuharðari varðandi rökstuðning um hina ríku almannahagsmuni, að það dugi ekki lengur, hvort sem er Vegagerðin eða Landsnet, að segja: Við ætlum að leggja veg/línu hérna. Það þarf að hafa fyrir því og rökstyðja það að svo ríkir almannahagsmunir séu til staðar að réttlætanlegt sé að heimila eignarnám.

Í öðru lagi þarf að sýna fram á svart á hvítu að öll samningaúrræði hafi verið þrautreynd. Það verða menn einfaldlega að hafa á hreinu. Það þýðir ekki fyrir menn að halda einn árangurslausan fund og labba svo upp í ráðuneyti og heimta eignarnám. Það er liðin tíð. Nú verða menn veskú að sýna fram á það að þeir hafi gert mönnum tilboð, þeir hafi reynt og sáttaumleitanir hafi átt sér stað, jafnvel með aðkomu utanaðkomandi aðila.

Já og nei varðandi víglínur í náttúruverndarmálum í landinu þá er manni miðhálendið og öll víðernin frá hálendisbrúninni efst í huga vegna þess að það yrðu svo ofboðsleg tímamót í umhverfismálum á Íslandi ef meiri háttar mannvirkjagerð væri hleypt inn á það svæði. Þó svo að á hinu gamla svæði miðhálendisins hafi því miður verið gert ráð fyrir svokölluðum „mannvirkjabeltum“ gegnum miðhálendið þá var það frumstæð hugsun sem er í reynd að hverfa út úr tillögu að landskipulagi, sem betur fer. Það er miklu betra en línurnar sem lagðar voru með svæðisskipulagi miðhálendisins þar sem er þegar á borðum okkar hér í formi tillögu að landskipulagsstefnu. Ég geri ekki lítið úr staðbundnari deilum um hluti eins og virkjanir í (Forseti hringir.) neðri hluta Þjórsár og persónulega er ég ekki síður illvígur í því máli en varðandi miðhálendið.