144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:14]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, það er nú vandinn. Ég svara þá spurningunni frá því áðan, í fyrra andsvari hv. þingmanns, alveg afdráttarlaust: Ég mundi láta það ráða mjög miklu ef gengið yrði einhvern veginn frá því að í því millibilsástandi sem við erum í raun og veru með í höndunum núna og þá kannski fram til 2016 yrðu engar frekari ákvarðanir teknar og enginn frekari undirbúningur unninn undir línulagnir á miðhálendinu. Ég mundi gera mikið með það, þá væri mér mun rórra. Ég veit alveg að það geta áfram orðið átök, t.d. um afmarkaða kafla á byggðalínuhringnum o.s.frv., en það er dálítið annars eðlis en þessi risavaxna ákvörðun um miðhálendið.

Varðandi eignarnámið þá væri það fróðleg umræða og betur lesinn væri gaman að velta því fyrir sér. Er að verða viss réttarþróun í því? Mér fyndist það gott vegna þess að það er ekki lengur hægt að halda því fram og var kannski aldrei hægt að það séu einhverjir ríkir almannahagsmunir að koma raforku frá einum seljanda til eins kaupanda á einhverjum stað bara af því að þeir vilja það. Hvað með þjóðina? Almannahagsmunirnir ganga út frá þjóðarhag og því sem er almenningi til góða, ekki einhverju sem einhverjir halda að sé voðalega sniðugt fyrir þá, það er munurinn.

Varðandi svo landið og hvort menn ættu að eiga þann kost kannski að kaupa það af eigendum til annarra nota, til friðunar eða eitthvað því um líkt í staðinn fyrir að það færi undir línur, það er áhugaverð hugsun. Ég reyni alltaf að muna það fornkveðna sem nestor minn í jarðfræði, Sigurður heitinn Þórarinsson, setti á blað í gamla daga þegar hann tók saman sitt merka rit um fossa á Íslandi og horfði að einhverju leyti til þess að margir litu þá girndaraugum til raforkuframleiðslu. Vissulega viðurkenndi hann það. Hann raðaði mörgum af þessum fallegu fossum upp í mikilvægisröð. Fyrsta tilraunin til að búa til rammaáætlun var í raun þegar Sigurður heitinn Þórarinsson raðaði upp fossunum út frá verndargildi (Forseti hringir.) og bað menn þess lengstra orða í lokin að hafa í huga að (Forseti hringir.) það væri fleira verðmætt en kílóvattstundir, (Forseti hringir.) t.d. unaðsstundir.