144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

stefna stjórnvalda um lagningu raflína.

321. mál
[22:17]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir framhaldsnefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína.

Minni hlutinn bendir á að meiri hlutinn hefur lagt til nokkrar breytingar á frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum, það er það mál sem við vorum að ræða hér fyrr um kerfisáætlun fyrir 3. umr., en það hefur verið til umfjöllunar í nefndinni samhliða þessu máli. Hins vegar hyggst meiri hlutinn ekki leggja til frekari breytingar á tillögu þessari og telur minni hlutinn það miður.

Minni hlutinn leggur til nokkrar breytingar á tillögunni, m.a. að meginreglan verði að metið verði í hvert sinn hvort nota eigi loftlínu eða jarðstreng í meginflutningskerfi raforku. Ekki verði því getið um ákveðna meginreglu eins og gert er ráð fyrir í tillögunni. Þá leggur minni hlutinn til breytingar á upptalningu náttúruverndarsvæða með það að markmiði að auka möguleika á að jarðstrengur verði fyrir valinu við uppbyggingu flutningskerfis raforku. Breytingarnar varða annars vegar það hvernig svæði eru skilgreind og hins vegar að einnig verði kveðið á um að horfa skuli til jaðarsvæða umhverfis þjóðgarða og friðlýst svæði. Með þessu yrði verndargildi náttúruverndarsvæða í heild aukið og dregið úr þeirri sjónmengun sem loftlínur valda. Tillaga minni hlutans felur í sér að í stað þess að vísa til 53. gr. náttúruverndarlaga og til þjóðgarða og friðlanda verði vísað til 50. gr. náttúruverndarlaga, en undir hana falla þjóðgarðar, friðlönd, náttúruvætti á landi, friðlýstar lífverur, búsvæði o.fl. og fólkvangar.

Jafnframt gerir minni hlutinn tillögu um að við samanburð á kostnaði verði miðað við þrefalt hlutfall í stað þess hlutfalls sem er 1,5 í tillögunni, en meiri hlutinn hefur lagt til að hlutfallið verði tvöfalt. Einnig er lagt til að í sérstökum tilvikum geti hámarkskostnaðarhlutfall orðið hærra.

Þá leggur minni hlutinn til að hnykkt verði á því að tekið verði mið af nýjum náttúruverndarlögum sem öðlast eiga gildi 1. júlí næstkomandi.

Minni hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. Í stað tölunnar „1,5“ í kafla 1.2 og 2. mgr. kafla 1.3 komi: þrisvar.

2. Við kafla 1.3.

a. 1. mgr. orðist svo:

Í meginflutningskerfi raforku skal metið í hverju tilviki fyrir sig hvort rétt sé að nota loftlínu eða jarðstreng á viðkomandi línuleið, eða afmörkuðum köflum hennar, og skulu eftirfarandi viðmið réttlæta dýrari kost:

1. Ef línuleið er innan skilgreinds þéttbýlis, samanber skilgreiningu á þéttbýli í 2. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010.

2. Ef línuleið er innan svæða þar sem eru friðlýstar náttúruminjar samkvæmt 50. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.

3. Ef línuleið er við flugvöll þar sem sýnt er að loftlína geti haft áhrif á flugöryggi.

b. Á eftir 2. málsl. 2. mgr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Í sérstökum tilvikum er unnt að víkja frá hámarkskostnaðarhlutfalli.

c. Lokamálsliður 2. mgr. falli brott.

d. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Við val á línuleið skal taka sérstaklega tillit til jaðarsvæða friðlýstra svæða, samanber 2. tölul. 1. mgr. þessa kafla.

3. Við bætist nýr kafli, Endurskoðun stefnunnar, svohljóðandi:

Alþingi ályktar að horft verði til endurskoðunar á náttúruverndarlögum og stefna þessi yfirfarin þegar henni verður lokið. Þannig muni skilgreiningar nýrra laga hafa áhrif á stefnuna, svo sem hvað varðar náttúruverndarsvæði og óbyggð víðerni.

Undir þessa tillögu ritar sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Eins og komið hefur fram í umræðunni voru gerðar þó nokkrar breytingar á kerfisáætluninni, en í þessu máli, nr. 321, varðandi lagningu raflína, eru gerðar sáralitlar breytingar og gátum við hjá Vinstri grænum ekki fallist á að ekki yrði tekið til fleiri hluta eins og við höfum kynnt í nefndaráliti okkar og ég hef gert grein fyrir með breytingartillögu sem fylgir framhaldsnefndarálitinu. Komið var til móts við athugasemdir varðandi jarðstrengina og kostnað við þá og sagt að þeir yrðu tvisvar sinnum dýrari í staðinn fyrir 1,5 sinnum dýrari, og urðu þær breytingar hjá meiri hlutanum að orð varðandi rekstrarkostnað yfir líftíma mannvirkisins falla brott.

Það er auðvitað mjög mikilvægt að reynt verði að koma fyrir jarðstrengjum sem víðast í stað loftlína og ég held að það sé framtíðin að reyna að koma því fyrir loftlínur, að ekki verði hægt að taka einhvern afmarkaðan kafla og bera saman við loftlínu, það þurfi líka að horfa til lengri vegalengdar í þeim efnum og bera saman einhvern afmarkaðan kafla við enn þá lengri línu og kanna hve hátt hlutfall það yrði af kostnaði að leggja streng í jörð. Ég held að mikilvægi þess verði sífellt meira í framtíðinni þegar við byggjum upp öfluga ferðaþjónustu. Almenningur vill njóta náttúrunnar í víðernum, hvort sem er uppi á hálendinu eða annars staðar, og þá er auðvitað gífurleg sjónmengun af loftlínum sem við eigum að gera allt til þess að lágmarka. Þó að aldrei verði komist hjá því að hafa loftlínur getum takmarkað þær mjög.

Mig langar aðeins í lokin að drepa niður í ágæta grein eða samantekt sem framkvæmdastjóri Landverndar hefur sent frá sér. Hann ræðir um tröllvaxnar loftlínur. Eru þær framtíðarsýnin? Þar segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi um breytingu á raforkulögum er gert ráð fyrir að þegar Landsnet reiknar út þörf á nýjum raflínum í kerfisáætlun sinni geti fyrirtækið miðað við orkuflutning frá öllum virkjanahugmyndum í orkunýtingar- og biðflokki rammaáætlunar. Þetta myndi þýða stórar og tröllslegar loftlínur um allt land eins og við m.a. þekkjum af Hellisheiðinni og frá Fljótsdalsstöð niður á Reyðarfjörð. Þar sem að orkunýtingarflokkur jafngildir ekki ákvörðun um að virkja, hvað þá biðflokkur, yrði með þessu lögfest að Landsnet tæki mið af óraunhæfum eða fölskum forsendum við áætlanagerð sína. Það má ekki verða.“

Enn fremur segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, í grein um þessi mál, með leyfi forseta:

„Stefna um engar raflínur í jörð? Hin tillaga ráðherra gengur út á stefnu um lagningu raflína. Sett eru fram viðmið um við hvaða aðstæður megi leggja jarðstrengi þrátt fyrir að þeir kosti meira en loftlínur. En þau viðmið ná ekki einu sinni til allra náttúruverndarsvæða og, ótrúlegt en satt, ekki til víðerna, einmitt þar sem sjónræn áhrif loftlína eru afar neikvæð. Í ofanálag má kostnaðarmunur ekki fara yfir ákveðið þak til að viðmiðin eigi við, nema fyrir einstöku landgerð. Með þessu er í reynd verið að útiloka lagningu stórra 220 kV jarðstrengja á Íslandi, en stefna Landsnets er einmitt að byggja meginflutningskerfið upp á 220 kV. Landsnet hefði því frítt spil fyrir loftlínuskóga út um allt land, þar með talið á Sprengisandi, í Skagafirði, Öxnadal, á Reykjanesskaga og víðar.“

Ég held að við eigum að hafa þessi orð í huga í umræðunni. Við eigum auðvitað ekki að heimila lagningu loftlínu á helgunarsvæðum í kringum þjóðgarða, t.d. í túnfæti á þjóðgarði eins og Vatnajökulsþjóðgarði og á fleiri stöðum. Það má alls ekki gerast.

Ég læt þetta gott heita og lýk máli mínu.