144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

stefna stjórnvalda um lagningu raflína.

321. mál
[22:29]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Eins og kom fram í nefndaráliti hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur gerum við í þingflokki Vinstri grænna allnokkrar efnislegar athugasemdir við málið og leggjum aukinheldur fram nokkrar breytingartillögur sem hv. þingmaður gerði grein fyrir áðan og varða kannski fyrst og fremst stöðu raflínanna gagnvart náttúruminjum, friðlýstum svæðum og hálendi Íslands.

Það olli mér vonbrigðum við meðferð málsins fyrr í vetur þegar menn gátu ekki fallist á það að treysta þau sjónarmið í málinu að styrkja stöðu náttúruverndarsvæða og friðlýstra svæða að því er varðar línulagnirnar og auk þess skortir öll viðmið um vernd víðerna, þ.e. svæði sem við erum þó öll sammála um, tel ég vera, ég hef ekki heyrt neinn sem er ekki sammála því að áhrif mastra og loftlína eru mjög mikil á víðernin. Þess vegna var maður nokkuð hugsi yfir því, en við skulum ekki útiloka það að breytingartillögur þær sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir mælti fyrir muni njóta stuðnings í ljósi þess að málið hefur fengið nokkuð gott gerjunartímabil, ef svo má að orði komast, í þinginu og fengið ítarlega umfjöllun og sérstaklega þau sjónarmið sem varðar samspil línulagna og víðerna og náttúruverndarsvæða.

Tillagan snýst um að sett séu fram viðmið við það hvaða aðstæður megi leggja jarðstrengi þrátt fyrir að þeir kosti meira en loftlínur, en eins og fram hefur komið ná þau viðmið ekki til svæða sem eru friðlýst og jafnvel ekki þeirra svæða sem þegar eru friðlýst að náttúruverndarlögum. Við getum nefnt friðlönd víða á landinu, svæði sem njóta mikillar verndar vegna hás verndargildis en eru samt sem áður ekki varin frammi fyrir þessari nálgun.

Auk þess er gert ráð fyrir að kostnaðarmunur á milli lína í jörð og loftlína megi ekki fara yfir ákveðið þak til þess að viðmiðin eigi við nema fyrir einstöku landgerðir og það má spyrja hvort þá sé ekki í raun verið að gefa Landsneti frítt spil að því er varðar loftlínur um allt land, þar á meðal á Sprengisandi og í Skagafirði, Öxnadal, Reykjanesskaga og víðar á viðkvæmum svæðum.

Það sem er kannski yfir og allt um kring í þessu máli er að völd Landsnets eru aukin til svo mikilla muna og vegna þess að þessi mál eru nokkuð samtvinnuð, þ.e. frumvarpið og síðan þingsályktunartillagan, þá er það það sem menn hafa mestar áhyggjur af í náttúruverndarsamtökum, bæði Landvernd og Náttúruverndarsamtökum Íslands og aðrir þeir aðilar sem hafa verið að skoða þessi mál, að völd Landsnets eru aukin til svo mikilla muna í þessu máli og þar með ákvarðanataka færð fjær hinu lýðræðislega valdi. Þá er ég bæði að tala um sveitarstjórnir og Alþingi. Það gerir málin nokkuð óaðgengileg fyrir okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði vegna þess að við höfum alltaf lagt á það megináherslu að við gætum að þessum tilhneigingum í löggjöf að því er varðar skipulag umhverfis- og náttúruverndarmála, sem snýst um að færa völd í hverju skrefi nær almenningi, tryggja aukið gagnsæi og tryggja að hjartað í Árósasamningnum ráði för í hverri ákvörðun þannig að ákvarðanataka, rökstuðningur og aðdragandi ákvarðanatöku sé almenningi og félagasamtökum, grasrótarhreyfingum svo aðgengileg á öllum stigum að almenningur eigi þess kost að hafa áhrif á ákvarðanatökuna. Með þeim hætti drögum við úr hættunni á því að vondar ákvarðanir séu teknar, ef svo má að orði komast.

Þá erum við komin að öðrum þætti sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir ræddi í ræðu sinni, sem fjallar um mikilvægi þess þegar við leiðum í lög atriði sem varða ráðstöfun lands og skipulag og náttúruvernd o.s.frv. til langrar framtíðar að allur lagaumbúnaður og regluverk sé þannig að tryggt sé, eins og nokkur er kostur, að lagaumbúnaðurinn lifi af kosningar og ný kjörtímabil, að við leggjum í það vinnu. Þetta er ákall til meiri hlutans í þinginu, að við leggjum í það vinnu fyrir fram að tryggja eins og kostur er samstöðu í þinginu um slík mál. Það hefur því miður verið fyrir borð borið í þessu máli og var þannig í þingsályktunartillögunni sem er til umræðu en ekki síður í frumvarpinu sem var rætt áðan, þannig að það var ekki fyrr en málið var ítarlega rætt í þinginu að meiri hlutinn tók málið til sín og gerði á því nokkrar breytingar, sem þó eru kannski ekki nægilega veigamiklar til þess að komast hjá þeim hættum sem ég hef þegar farið yfir í yfirferð minni hér.

Ég spurði hv. þm. Pál Jóhann Pálsson fyrr í kvöld, þegar hann mælti fyrir nefndaráliti um frumvarpið, hvort hann sem framsögumaður þessa máls eða meiri hluti atvinnuveganefndar hefði skoðað sérstaklega nýlegan dóm Hæstaréttar eða ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA og síðast en ekki síst úrskurð úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál í málum sem tengjast á ýmsan hátt þeim álitaefnum sem þingmálin fjalla um og var að hluta til ætlað að leysa. Hv. þingmaður svaraði því mjög heiðarlega að hann hefði ekki skoðað þau mál sérstaklega og það er, verð ég að segja, mikið áhyggjuefni vegna þess að þau efnisatriði sem koma fram í þessum málum og ekki síst í dómi Hæstaréttar, það má segja að fyrirliggjandi frumvarp og þingsályktunartillagan séu komin í nýtt ljós og það er rétt að við stöldrum við og fáum greiningu. Ég mundi vilja sjá að við fengjum greiningu á áhrifum þessara úrskurða og dóma með einhvers konar lögfræðiáliti þar sem þetta yrði borið af fyrirliggjandi frumvarpi og þingsályktunartillögu.

Nú er það svo að við erum komin hér á síðari helmingi þessarar umræðu og víst að umræðan verður ekki mikið dýpri eða að fleiri sjónarmið komi fram. Ég sé þó að hv. þm. Páll Jóhann Pálsson er í salnum og ekki síður hv. þm. Þórunn Egilsdóttir, sem er formaður þingflokks Framsóknarflokksins, og ég vænti þess að þau leggi við hlustir þegar ég lýsi áhyggjum mínum, vegna þess að ég er ekki að tala um einn tiltekinn dóm eða eitt álit eða eina vangaveltu heldur um að það hrannast hér upp nokkur mál, nokkrir slíkir úrskurðir, sem falla algjörlega að þeim þingmálum sem eru til umfjöllunar, skarast við umfjöllunarefni þeirra og geta hugsanlega haft áhrif á það hver eðlilegust og farsælust niðurstaða þeirra þingmála væri.

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir fór ágætlega yfir breytingartillögur minni hluta atvinnuveganefndar sem kannski er ekki ástæða til þess að fjalla um eða staldra við frekar. En ég vil segja almennt að maður hefur ákveðnar áhyggjur af þessari útvistun, ef svo má að orði komast, svona stórra ákvarðana til Landsnets sem er fyrirtæki í opinberri eigu en er í raun og veru fjær almannavaldinu en gerist með opinberar stofnanir sem fara með stjórnsýsluákvarðanir. Ríkisendurskoðun tilkynnti fyrir síðustu áramót að Landsnet væri eitt af þeim opinberu fyrirtækjum sem ættu að sæta sérstakri stjórnsýsluúttekt á yfirstandandi ári og það er að gefnu tilefni. Það er vegna þess að Landsnet hefur ekki skilað þarfagreiningum, eftir því sem ég kemst næst, og framkvæmd mats á umhverfisáhrifum hefur borið það með sér að flutningsfyrirtækið líti á mat á umhverfisáhrifum sem nánast formsatriði en ekki sem það ferli sem eigi að tryggja samráð við almenning frá fyrstu stigum í því skyni að komast að sem bestri og farsælastri niðurstöðu, en ekki að komast að einhvers konar samkomulagi við sveitarfélagið á hverjum stað eins og um samningsatriði sé að ræða, miklu frekar tryggja umhverfismat með tryggri og skýrri aðkomu almennings á öllum stigum.

Virðulegur forseti. Þetta er áhyggjuefni, vegna þess að með þeim þingmálum sem eru til umfjöllunar er verið að færa Landsneti gríðarlega aukin völd og þótt mörg þessara atriða hafi verið bætt nokkuð í meðförum þingsins er það svo að enn stendur töluvert út af. Ég tel að þær breytingartillögur sem hefur verið mælt fyrir séu algjört lágmark til að tryggja það að koma málinu á kjöl, ef svo má að orði komast, sérstaklega gagnvart náttúruverndarsvæðum og víðernum, en að öðrum kosti sé ég ekki að þingflokkur Vinstri grænna geti stutt málið eins og það er lagt fram.