144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

störf þingsins.

[10:13]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Við lifum í sannkölluðu bónuslandi. Fyrir nokkrum dögum skýrði DV frá því að íslenska umsýslufélagið ALMC, áður Straumur–Burðarás, hefði lagt til hliðar 3.400 millj. kr. sem félagið hygðist greiða í bónusa til lykilstarfsmanna og stjórnarmanna. Að meðaltali nema þessar greiðslur um 100 millj. kr. á hvern starfsmann. Sumir munu fá meira, aðrir minna. 20–30 starfsmenn ALMC eiga von á slíkum bónusum að sögn DV. Í þessum hópi eru bæði Íslendingar og útlendingar.

Í dag skýrði sami fjölmiðill frá því að tugir núverandi og fyrrverandi starfsmanna Kaupþings eigi von á bónusum sem geti numið tugum milljóna í einstaka tilvikum verði nauðasamningar samþykktir. Samtals er um að ræða hundruð millj. kr. Höfum í huga að þetta eru ekki sérstaklega illa haldnir starfsmenn því að samkvæmt ársreikningi síðasta árs voru þeir með 1,6 millj. kr. að meðaltali í mánaðarlaun.

Bónuskerfi fjármálastofnana spilaði stórt hlutverk í hruninu 2008. Í gær safnaðist stór hópur fólks saman hér fyrir utan þinghúsið sem mótmælti öllu mögulegu, m.a. afturhvarfi til þess Íslands sem við þekktum rétt fyrir hrun.

Virðulegur forseti. Höfum við ekkert lært? Ætlum við virkilega að viðhalda bónuskerfi í íslensku fjármálalífi hvort sem bónusinn er 25%, 50% eða 100%? Viljum við nýtt bónusland? Svarið er nei.