144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

störf þingsins.

[10:17]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er fagnaðarefni að nú hilli undir samninga á almennum vinnumarkaði. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem gert hafa athugasemdir við verklag ríkisstjórnarinnar að öðru leyti í samningum við sína eigin starfsmenn, það er verulegt áhyggjuefni að ekki miði jafn vel þar. Það er hins vegar vert fyrir okkur að hafa í huga að það er ekki gefið þótt samningar takist á vinnumarkaði að okkur takist að tryggja samfélagsfrið. Við höfum verið hérna áður. Í árslok 2013 tókust samningar á almennum vinnumarkaði og við hið opinbera þar sem lagður var grunnur að friði á vinnumarkaði, en ríkisstjórninni tókst að spilla því.

Yfirlýsingar ráðherra, hvort sem það eru yfirlýsingar hæstv. fjármálaráðherra um að jöfnuður sé of mikill á Íslandi, eða skammir hæstv. forsætisráðherra í garð forustumanna í verkalýðshreyfingunni, eru gott dæmi um orðræðu sem á ekkert erindi í íslensk stjórnmál í dag og grefur undan samstöðu þegar við þyrftum að vera að byggja samstöðu um leiðina áfram. Svarið er nefnilega akkúrat það að það þarf meiri jöfnuð. Það sem ríkisstjórnin féll á, prófið sem hún féll á í kjölfar samninganna í árslok 2013, var að hún klúðraði því að skila til launþega lækkunum á opinberum gjaldskrám. Hún klikkaði á því að koma með skattkerfisbreytingar sem skiluðu þeim lægst launuðu einhverju og af því má læra.

Leiðin áfram núna hlýtur að felast í því að breyta skattkerfinu í þágu þeirra sem hafa lágar tekjur og meðaltekjur, að koma með alvöruúrlausnir í húsnæðismálum eftir tveggja ára verkleysi ríkisstjórnarinnar og tryggja þjóðinni allri hámarksarð af auðlindum. Það er grundvallarvandamál sem við er að glíma núna að þjóðin hefur enga trú á því að ríkisstjórnin hafi áhuga (Forseti hringir.) á því að tryggja hámarksarð af auðlindum í sameiginlega sjóði.