144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

störf þingsins.

[10:19]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að nefna tvö atriði varðandi kjarasamninga sem ættu að vera forgangsatriði fyrir ríkisstjórnina, annað skammtímaatriði og hitt langtímaatriði. Skammtímaatriðið er að forgangsraða fjármunum þangað sem 90% landsmanna vilja, í fyrsta flokks heilbrigðiskerfi. Það gengur ekki að aftur lamist starfsemi í heilbrigðiskerfinu, hjúkrunarfræðingar að þessu sinni farnir í verkfall áður en deilan er leyst. 90% landsmanna sögðu í nóvember í Capacent Gallup könnun sem Píratar létu gera að þeir vildu forgangsraða þeim fjármunum sem koma úr sameiginlegum sjóðum okkar í fyrsta flokks heilbrigðiskerfi. Ríkisstjórnin verður að fara að hlusta á þetta.

Langtímaatriðið er að okkur vantar rammalöggjöf um farsælli gerð kjarasamninga.

Ríkisstjórnin lofaði fyrir tveimur árum og sagði í stefnuyfirlýsingu sinni, með leyfi forseta:

„Unnið verður að víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðar.“

Ríkisstjórnin sagði fyrir tveimur árum síðan í minnisblaði til aðila vinnumarkaðarins, með leyfi forseta:

„Í aðdraganda að gerð kjarasamninga hafa aðilar vinnumarkaðarins horft til framtíðar og breyttrar umgjarðar við gerð kjarasamninga. Vilji er til að tryggja meiri aga og festu líkt og einkennir gerð kjarasamninga á Norðurlöndum […].“

Góð hugmynd. Hvað segir þá ASÍ um málið í riti sínu Kaup og kjör? Þar segir að ASÍ og SA lýstu því yfir að samtökin vildu koma að sameiginlegu borði með aðilum opinbera vinnumarkaðarins og setja sér markmið um bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Nærtækast töldu ASÍ og SA að leita fyrirmynda hjá nágrannalöndunum sem tekist hefur að auka kaupmátt samhliða lægri verðbólgu.

Hvað segja SA um þetta? Jú, þeir segja að norræna vinnumarkaðslíkanið hafi tryggt efnahagslegan stöðugleika og skapað betri kjör en íslenska líkanið. Aðilar vinnumarkaðarins, stjórnvöld og Seðlabankinn bera sameiginlega ábyrgð á því að koma á (Forseti hringir.) og viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Hvar er þessi rammaáætlun um (Forseti hringir.) norrænt líkan til þess að ná farsælli gerð kjarasamninga? Ríkisstjórnin þarf (Forseti hringir.) að fara að svara þessu.