144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Það er góður andi í þingsalnum undir hinni traustu og góðu stjórn. Ég vil nota tækifærið í dag og óska Eyjamönnum til hamingju með að fá nýjan Herjólf. En nýtt skip þarf góða höfn. Við sem höfum haft áhyggjur af Landeyjahöfn höfum ekkert minni áhyggjur þótt ákveðið sé að nýtt skip komi. Nú er mikilvægt að Vegagerðin setji í stóru skorurnar og lagfæri höfnina.

Landeyjahöfn hefur frá upphafi verið lokuð mánuðum saman á hverju ári. Það gengur ekki að bjóða Eyjamönnum upp á það að þegar nýtt skip kemur, sem verður minna og gangminna, þurfi að sigla mánuðum saman til Þorlákshafnar. Það getur ekki verið markmiðið. Í nýja skipinu er ekki gert ráð fyrir sérklefum heldur að það verði tíu manna klefar eða almenningar og ég vil bara segja það í léttum tón að ef ríkisstjórnin færi til Eyja þá þyrfti hún að sofa með mökum sínum saman í klefa. Ef hún getur það þá geta auðvitað Eyjamenn það. En í fúlustu alvöru er það auðvitað ekki boðlegt að hafa slíka aðstöðu fyrir Eyjamenn.

Ég vona að sú ákvörðun sem ríkisstjórnin tók í gær í samgöngumálum fyrir Eyjamenn verði til góðs. Ég ætla alla vega að verða bjartsýnn og trúa því að við séum að stíga skref fram á við en til þess verðum við að tryggja að Landeyjahöfn verði sú höfn sem upphaflega var áætlað og við viljum sjá vegna þess að samgöngubætur sem fylgja þeirri höfn þegar hún er í lagi eru gríðarlega mikilsverðar Eyjunum, ferðaþjónustunni, atvinnulífinu og fólkinu öllu.