144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það eru næg verkefni fyrir okkar þjóð, bæði sem snúa að heimilum og fyrirtækjum. Það er hins vegar útilokað að við náum árangri ef við tölum ekki út frá staðreyndum. Nú vita allir sem hér eru inni að ríkisstjórnin hefur forgangsraðað í þágu heilbrigðismála og stóraukið framlög til heilbrigðismála, bæði hlutfallslega og í upphæðum. Nú vita allir að hér hefur kaupmáttur aukist, jöfnuður er mjög mikill, verðbólga er í sögulegu lágmarki og sem betur fer hafa verið hér hallalaus fjárlög. Ef menn vilja í alvöru að við förum í norræna módelið þegar kemur að vinnumarkaðsmálum eiga menn ekki að gagnrýna það þegar á það er bent. Hæstv. forsætisráðherra benti til dæmis á að í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við byrja menn á útflutningsgreinunum, þar er fyrst samið áður en farið er í aðra þætti eins og til dæmis hjá opinberum starfsmönnum. Ef menn vilja í alvöru að við förum þá leið skulu menn taka undir það. Ef menn vilja fara einhverja allt aðra leið skulu menn líka bara segja það.

Virðulegi forseti. Hér eru næg verkefni og margir eiga um sárt að binda, þar á meðal sjúklingar. Ég vek athygli á grein sem Ebba Margrét Magnúsdóttir, sérfræðingur á kvennadeild Landspítalans, skrifaði í Fréttablaðið í dag. Hún bendir á að bæði forstjóri Landspítalans og landlæknir hafi tjáð sig um ástandið og ýmsir aðrir en lítið mark virðist vera tekið á stöðunni, þeirri alvarlegu stöðu sem er í dag. (Forseti hringir.) Þetta er eitt af því sem við verðum að breyta því að þetta er ólíðandi, þetta snýr að því fólki sem stendur veikast í okkar þjóðfélagi.