144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 153/2014 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

515. mál
[11:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þetta er eitt af þeim málum sem hefur verið lyft mjög af fjölmiðlum og hossað og talið að skipti sköpum um velferð margra. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég tel að þetta þingmál brjóti ekki í blað og þessi ákvörðun ESB, sem við tökum upp í okkar rétt, muni engu máli skipta eins og reyndar kom nokkuð fram hjá hv. formanni nefndarinnar.

Ég styð þetta mál allt saman. Það getur vel verið að það gagnist einhverjum, en ég ætla samt að vekja eftirtekt á því að heimild er fyrir stjórnvöld, í þeim ríkjum sem eru aðilar að þessu, að stýra notkun þessarar leiðar. Eins og hv. formaður greindi hér frá verður hægt að gera það í gegnum reglugerð. Hann taldi upp ákveðna þætti sem þyrfti forsamþykkis við. Forsamþykki er eins konar flöskuháls og meðal annars til þess fallið að ríki geti stýrt kostnaði sínum vegna þessa. Ég tel það fullkomlega eðlilegt og er þeirrar skoðunar að allar þær vonir sem bundnar hafa verið við þetta, eða reistar af umfjöllun misviturra manna og misviturra fjölmiðla, séu ekki á rökum reistar. Það er nú önnur saga.

Þetta horfir til bóta og getur í einhverjum tilvikum hjálpað fólki, en það mun sjaldnast gera það hér á Íslandi. Það er rakið vel í þessu nefndaráliti að það sé einkum við aðrar landfræðilegar aðstæður þar sem slíkir möguleikar eru uppi.

Fyrirvari minn við þetta mál byggist þó ekki á þessum viðhorfum og háreistu væntingum, sem ég tel orðum auknar, heldur tengist hann umræðu sem hefur verið um það með hvaða hætti á að reka heilbrigðisþjónustu. Það hafa verið miklar umræður í Evrópu og miklu meiri á meginlandinu en hérna um að það eigi að færa sig í átt til aukins einkarekstrar og einkavæðingar á heilbrigðisþjónustunni. Það urðu heiftarlegar deilur, meðal annars hér á sínum tíma, í tengslum við upptökur ákveðinna gerða, sem leiddu til þess að Íslendingar settu mjög skýran fyrirvara á sínum tíma við tiltekna tilskipun sem við tókum upp og var, ef ég man rétt, einhvers konar afbrigði af þjónustutilskipuninni margfrægu.

Stuðningur minn við þetta mál byggist alfarið á því að það sé algjörlega kýrskýrt að hér sé ekki með nokkrum hætti verið að takmarka rétt ríkis sem tekur upp þessa tilskipun til að haga heilbrigðisþjónustu sinni í einu og öllu með þeim hætti sem ríkið kýs sjálft. Hér er ekki með nokkrum hætti verið að feta sig inn á þá braut að hvetja til einkavæðingar eða einkarekstrar. Ef íslenska ríkið gerir það þá er það sjálfstæð ákvörðun og allsendis ótengd þessu og ekki er heldur hægt að skipuleggja, á grundvelli samþykktar þessa máls, með einhverjum hætti sölu á þjónustu í útlöndum sem íslenska ríkið mundi greiða sem byggð er á þeirri framkvæmd heilbrigðisþjónustu.

Þetta er minn fyrirvari. Ég veit að lesa má þetta út úr tilteknum orðum í nefndarálitinu. Ég vildi hins vegar fyrir mína parta og fyrir hönd minna pólitísku vandamanna slá þetta fast í gadda.