144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 153/2014 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

515. mál
[11:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Aðeins örfá orð inn í þetta samhengi. Ég hef fylgst aðeins með þessu máli og vitað af því að það væri í vændum. Vegna orðaskipta hv. þingmanna Össurar Skarphéðinssonar og formanns utanríkismálanefndar, Birgis Ármannssonar, vil ég þó segja að margar sömu spurningar hafa vakað í huga mínum og hv. þm. Össur Skarphéðinsson var hér með. Nú tekur maður að sjálfsögðu orð formanns utanríkismála fullgild, eins og hér kemur fram í nefndaráliti, fyrir því að innleiðing þessa samnings þvingar okkur ekki sjálfkrafa til grundvallarbreytinga á skipulagi heilbrigðisþjónustu okkar, það dreg ég ekki í efa. En það er alveg ljóst hvernig margir hugsa sér að nýta m.a. þennan samning í áttina að því að ryðja brautina fyrir meiri markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar og að menn geti sótt hana í afli fjármuna sinna og þessara réttinda hvert á land sem er. Þar með ryðji það brautina fyrir að einkaaðilar fari í auknum mæli að bjóða upp á þessa þjónustu. Þá er nú stutt yfir í spurninguna um hvort menn geti keypt sig fram fyrir á biðlistunum o.s.frv.

Það er ágætt að þessi sjónarmið séu reifuð hér og gott að hamra á því svo langt sem það nær að með þessu sem slíku er ekki verið að undirbúa eða boða neina grundvallarstefnubreytingu í heilbrigðisþjónustu okkar þó að margir sem unnið hafa að því að hrinda þessu í framkvæmd líti það þeim augum. Það veit ég mjög vel, m.a. vegna umræðna á norrænum vettvangi um það hvaða áhrif þetta kynni að hafa á skipulag heilbrigðisþjónstunnar á Norðurlöndunum, þetta og fleiri tengd mál.

Fyrst ég nefni Norðurlöndin tel ég hins vegar að það séu vonbrigði að ekki hafi gerst meira í þeim efnum hvað varðar samstarf innan Norðurlandanna um sérhæfðari heilbrigðisþjónustu. Það má að sjálfsögðu nálgast þetta frá tveimur hliðum, þ.e. frá sjónarhóli notendaþjónustunnar, þeirra sem þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda, og að sjálfsögðu skipta hagsmunir þeirra sköpum. En þetta er líka spurning um veitandann, ríkið, sem greiðir að uppistöðu til fyrir þessa starfsemi og hvaða möguleikar felast í samstarfi landa til þess að bæta þjónustuna og auka skilvirkni hennar með auknu samstarfi.

Á vettvangi Norðurlandaráðs kom fram býsna viðamikil skýrsla, sennilega er nú að verða eitt og hálft eða tvö ár síðan. Könsberg-skýrslan, hygg ég að hún hafi verið kölluð í höfuðið á aðalhöfundinum. Þar voru lagðar fram mjög áhugaverðar tillögur um það hvernig Norðurlöndin gætu og ættu að vinna meira saman á sviði heilbrigðisþjónustu til góða, bæði notendum sem fengju öflugri og sérhæfðari þjónustu og svo mundi það leiða til sparnaðar fyrir ríkið. Þá þyrfti að sjálfsögðu að efla það samstarf og dýpka þá samninga sem þó eru til staðar innan Norðurlandanna um samstarf á þessu sviði. Ég er ekki þeirrar skoðunar, virðulegur forseti, og hef meiri metnað fyrir hönd norræns samstarfs en svo að ég vilji að það sökkvi allt saman inn í einhverjar samevrópskar gerðir. Ég tel að Norðurlöndin eigi að standa vörð um rétt sinn til þess að vinna saman á dýpri og víðtækari forsendum en þau gera vegna aðildar sinnar að Evrópusambandinu eða tengingar í gegnum EES, eins og í tilviki okkar og Noregs.

Það hefur nú verið dálítið umræða hér um þá staðreynd að Ísland hefur ekki enn ráðist í það verkefni, sem náttúrlega er löngu tímabært, að kaupa jáeindaskanna til landsins. Dæmi um nýtt mjög sérhæft en afar mikilvægt rannsóknartæki sem eru til á hinum Norðurlöndunum öllum frá einu, tveimur, þremur upp í tíu, en enginn slíkur er til á Íslandi. Það liggur nú reyndar enn þá ósvöruð fyrirspurn frá mér til hæstv. heilbrigðisráðherra um … (ÖS: Hann þorir ekki að svara þér.) Nei, það er ekki við hann bara að sakast, heldur líka ræðumann sem hefur stundum verið fjarverandi þegar hæstv. heilbrigðisráðherra gat svarað, svo sanngirni sé nú gætt í því.

En jáeindaskanni og fleiri slík mjög sérhæfð dýr lækningatæki eru dæmi um hluti sem eru að verða svo þróaðir, dýrir og sérhæfðir að það er að verða óraunhæf framtíðarsýn að hvert og eitt Norðurlandanna muni koma sér upp slíkum búnaði. Það hefur jafnvel verið rætt um það að í einstökum tilvikum yrði byggð upp ein miðstöð fyrir slíkar allra sérhæfðustu lækningar á öllum Norðurlöndunum og kannski mundu menn skiptast eitthvað á um að starfrækja þær, ein tiltekin tegund þjónustu og tækjabúnaður yrði í Ósló, annar í Kaupmannahöfn o.s.frv.

Það kallar á dýpkað samstarf. Ég vil bara halda því til haga þegar menn ræða um innleiðingu á evrópskri tilskipun um þetta efni, sem hefur afar háleit og göfug markmið, að greiða fyrir aðgengi að öruggri hágæðaheilbrigðisþjónustu yfir landamæri, að það er fleira til í þessum efnum en hið evrópska samstarf og ástæða til að minna á norræna samstarfið.

Það er líka svo að ákveðin heilbrigðisþjónusta er undanskilin þessum reglum, hún er ekki hluti af þessari tilskipun. Þar má nefna líffæraígræðslur, en Íslendingar hafa að stærstum hluta verið háðir samstarfi við nágranna sína um slíka hluti og þessi samningur breytir engu þar um.

Virðulegur forseti. Til að lengja þetta ekki frekar þá er ég í þeim hópi sem hefur skoðað þetta með þau gagnrýnisgleraugu á nefinu að ég ætla mér ekki að standa fyrir grundvallarbreytingum í heilbrigðisþjónustu í átt til einkavæðingar, nóg er nú samt ef verið væri að undirbúa að læða slíku hér inn bakdyramegin í gegnum innleiðingu evrópskra tilskipunar. Og ég hef meiri metnað en svo fyrir hönd norræns samstarfs á sviði heilbrigðismála að ég vilji sjá það sökkva í þetta regluverk.