144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2015.

609. mál
[11:47]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Allt er það rétt sem hv. þingmaður segir, það bar ákveðinn skugga tveimur sinnum á síðustu tveimur árum yfir samskipti okkar og Færeyinga. Fyrra var þegar Færeyingar gerðu samning sem Íslandi þótti vera gerður á bak því gagnvart makrílstofninum, og hið síðara er auðvitað einhliða taka þeirra af stærri hlut í norsk-íslenska síldarstofninum. Norsk-íslenski síldarstofninn er náttúrlega alveg sjálfstætt og sérstakt áhyggjuefni, bæði út af þróun þess stofns og sömuleiðis hvernig samningsmálin eru þar að þróast eða ættum við að segja ekki þróast. Hins vegar er það svo að innan utanríkismálanefndar hafa menn nú gætt að þessu máli og farið yfir það en við þyrftum sennilega að gera það mun betur.

Að því er hið fyrra varðar er það nú svo að þrátt fyrir þá hörðu ræðu sem ég hélt hér um Færeyinga og þennan gerning þeirra á sínum tíma, því að mér var mjög brugðið, ekki síst vegna vináttu okkar og þeirra og gagnkvæms stuðnings á fiskveiðisviðinu, að þegar maður fer yfir málið og skoðar það þá voru Færeyingar í þeirri stöðu að þeir voru að sigla inn í mjög harðar refsiaðgerðir bæði vegna veiði sinnar á makrílstofninum, hvað þeir höfðu tekið sér stóran hluta þar, en líka vegna þess hvernig þeir höguðu sér gagnvart norsk-íslenska síldarstofninum. Þeim var síðan réttur samningur og þetta var beinlínis gert og hugsað upp af hálfu Norðmanna til þess að einangra Íslendinga. Hv. þingmaður orðaði það þannig að nú væri staðan sú að það væri ekki lengur við Evrópusambandið að etja heldur Norðmenn, en það var alltaf þannig. Ég sagði það alltaf á þessum tíma, þetta voru fyrst og fremst Norðmenn sem voru að koma í veg fyrir að hægt væri að ná samningi milli Íslands og Evrópusambandsins og það hefur legið fyrir. Færeyingar höfðu því ákveðnar afsakanir og ég hef svo meira um þetta að segja, frú forseti, sem er þá rétt að ég geri í ræðu á eftir.