144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2015.

609. mál
[11:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér hefur á síðustu dögum og reyndar síðustu missirum margoft verið vísað til bókar sem ber nafnið Ár drekans. Ef menn lesa Ár drekans þá komast þeir að því að mjög snemma, miðað við atburðarás sem þar er rakin, virðist sem Norðmenn hafi verið mjög einbeittir í því að gera tvennt. Í fyrsta lagi að koma í veg fyrir það að við næðum samningum um makrílstofninn við Evrópusambandið. En í öðru lagi kemur það líka fram að ég fékk mjög snemma um það grunsemdir sem ég taldi rökstuddar um að þeir ætluðu sér ekki að gera frekari samninga við okkur um norsk-íslenska síldarstofninn. Ég bar það hér upp á sínum tíma og að minnsta kosti sumum í stjórnarandstöðunni fannst það vera mikil paranoja af mér, en hvernig er það í dag, höfum við samning um norsk-íslenska síldarstofninn, er það þannig? Nei. Öllu því sem Norðmenn láta skína í og hóta gagnvart Íslendingum hafa þeir fylgt eftir.

Varðandi framkomu Færeyinga í þessum efnum og Dana, þá segi ég Dönum það þó til afbötunar að þeir lýstu því yfir að þeir ætluðu fram á síðustu stund að reyna að beita diplómatískum áhrifum sínum til þess að smokra beislinu fram af Færeyingum í þessum efnum og þeir gerðu það. Þeir áttu stóran þátt í því, en þeir hefðu auðvitað getað beitt neitunarvaldi á fyrri stigum.

Um Færeyinga segi ég hins vegar eftirfarandi: Þeir voru þó þeir drengir að þegar ljóst var að samningarnir voru að bresta á í Edinborg létu þeir eftir krókaleiðum Íslendinga vita. Það var reynt að koma þeim upplýsingum til hæstv. utanríkisráðherra. Hann svaf á þeim verði. Það var sagt í utanríkismálanefnd að hann ætti að fara til Færeyja þegar í stað og ræða við Færeyinga. Hann fór ekki. Hann var ekki einu sinni á þeim fundi. Hvað var hann að gera þá viku? (Forseti hringir.) Menn ættu að rifja það upp.