144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

samningur milli Grænlands og Íslands um stjórnun rækjuveiða á Dohrnbanka.

610. mál
[12:20]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi gjarnan fá álit hv. þingmanns, sem flutti hér merka ræðu, á einu tilteknu atriði. Núna er makríllinn að ryðjast í gegnum hitalínur og langt norður um og miklu norðar en menn áttu von á. Grænlendingar hafa, að því er virðist með vilja flestra, fengið útdeildan kvóta sem nemur, ef ég man rétt, um 100 þús. tonnum. Í öllu falli, samkvæmt lögum um úthafsveiðar þá getum við ekki leyft skipum sem sigla undir grænlenskum fána að landa afurðunum á Íslandi vegna þess að ekki er samið um stofninn. Er það ekki rétt hjá mér?

Það kom upp slíkt atvik á síðasta ári og þá hugsa ég eftirfarandi: Það er ekki samið um stofninn þó að allir vilji semja um hann og séu reiðubúnir að ganga frá samningi á þeim tölum sem liggja fyrir nema Norðmenn. Norðmenn komu í veg fyrir þann samning af pólitískum hvötum, það vita allir hvað fyrir þeim vakir, þeir eru náttúrlega að bíða eftir því að makríllinn fari aftur og telja að hann fari aftur og vilja ekki semja um hann, það er ástæðan, höfuðástæðan, þó að það sé önnur ástæða líka.

Þá er spurningin þessi: Er sanngjarnt, miðað við þær aðstæður sem ég hef lýst, að túlka lögin með þeim hætti eins og gert er að skip sem veiða makríl undir grænlenskum fána fái ekki að landa afurðinni á Íslandi þegar ljóst er að bæði Grænlendingar og Íslendingar vildu semja á þeim grundvelli? Á þá að láta okkur gjalda þess að einhver þjóð úti í heimi fer með offorsi gagnvart okkur? Er þetta ekki eitthvað sem við eigum að velta fyrir okkur gagnvart lagabreytingum? Er ekki verið að beita þarna íslenskum lögum gegn íslenskum hagsmunum og við erum knúin til þess af þjóð eins og Norðmönnum?