144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

samningur milli Grænlands og Íslands um stjórnun rækjuveiða á Dohrnbanka.

610. mál
[12:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður varpar hér í loftið mjög heitri kartöflu, satt best að segja. Strangt tiltekið er það þannig að strandríkjum ber að beita ráðstöfunum til þess að auðvelda engum sókn í stofn sem ekki hafa náðst utan um samningar þannig að tryggð sé sjálfbær nýting. Það er grunnregla. Svo eru frávik frá henni auðvitað möguleg. Ríkin hafa visst svigrúm til þess að meta hvernig þau beita því tæki, t.d. með því að hóta því en gera kannski ekki alvöru úr því, reyna að ná fram samningum. Það er væntanlega ekki hernaðarleyndarmál að þannig höfum við verið að reyna að nota þetta tæki gagnvart Rússum og veiðum þeirra á Reykjaneshrygg, að reyna að þrýsta á um að þeir kæmu aftur inn í samninga á grundvelli þess að ekki sé sjálfgefið að þeir fái þjónustu í íslenskum höfnum o.s.frv.

Varðandi veiðar Grænlendinga á makríl þá held ég að þeir hafi fyrst og fremst tekið sér hann bara einhliða, útdeilt einhliða ákveðnu magni, ekki á grundvelli samninga. Þeir hafa kallað það rannsóknar- og tilraunaveiðar og Ísland hefur núna tvö ár í röð sýnt ákveðinn sveigjanleika í túlkun þessara ákvæða hafréttarsáttmálans í þeim skilningi að Færeyingum hefur verið leyfð hér tiltekin löndun, enda væri um rannsóknar- og tilraunaveiðar að ræða. Nú eru þeir að vísu að færa sig yfir í að kalla þetta hefðbundnar veiðar á viðskiptalegum grunni. Þá kemur upp aftur ný staða sem þarf að meta, hversu langt okkur er stætt á að ganga.

Það sem hjálpar í þessum efnum og ég nefndi áðan er samstarfssamningur Íslands og Grænlands, þ.e. að það er hægt að vísa til hans, ef hv. þingmaður heyrir, það sem hjálpar er samstarfssamningur Íslands og Grænlands á sviði sjávarútvegsmála. Það er hægt (Forseti hringir.) að vísa til þess að hann er til staðar og við berum ákveðnar skyldur við þennan granna okkar og gagnaðila að þeim samningi og höfum í skjóli hans kannski gert meira en við hefðum annars gert varðandi ákvæði hafréttarsáttmálans.