144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

samningur milli Grænlands og Íslands um stjórnun rækjuveiða á Dohrnbanka.

610. mál
[12:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er hið fornkveðna að það verður ekki svo auðveldlega bæði sleppt og haldið. Við skulum hafa í huga að á eina hliðina er Íslandi mjög annt um orðstír sinn sem land sem berst fyrir sjálfbærum fiskveiðum og hefur verið í fararbroddi aðgerða gegn ólöglegum veiðum og sjóræningaveiðum og öðru slíku. Nú er ég, til að fyrirbyggja allan misskilning, ekki að tala um það í sömu andrá og þessar veiðar Grænlendinga og samskipti okkar við þá eða Færeyinga. Ísland hefur lent í þessum núningi aftur og aftur á undanförnum árum. Um tíma leyfðum við engar landanir afla úr stofnum sem ekki var samið um við Austur-Grænland. Svo var hér sjávarútvegsráðherra sem leyfði allt í einu löndun á þessu, reyndar aðallega í sínum heimabæ, og það leiddi auðvitað til þess að það náðist stóraukinn árangur við veiðarnar, t.d. á grálúðu við Austur-Grænland, sem aftur leiddi til þess að Grænlendingar hafa nú náð hærri hlutdeild í þeim stofni en þeir hefðu annars gert.

Við höfum því ekki alltaf verið alveg sjálfum okkur samkvæm í þessu. En það má minna á bæði núninginn sem varð þegar þetta skip frá Grænlandi kom hér — sem var vel að merkja vinnsluskip og gæti hafa skipt máli í þeim efnum, það var ekki um óunninn afla að ræða heldur unninn afla — og þegar færeyskt skip leitað hér hafnar og vildi fá þjónustu en hafði verið á veiðum sem þýddu að Ísland meinaði því um það. Varð af hvellur nokkur og vinir okkur voru langeygir. Þetta er auðvitað vegna þess að Ísland hefur verið að reyna að beita þessu en við höfum verið kannski frekar ein um það á okkar svæði. Þetta hefur verið miklu frjálslegra í Færeyjum, satt best að setja held ég að þeir hafi ekkert verið að gera sér rellu út af því hvaðan menn kæmu með afla til löndunar, og í Grænlandi hefur auðvitað ekkert reynt á þetta frá þeirra hlið, þ.e. mér er ekki kunnugt um að erlend fiskiskip hafi borið sig upp við að fá að landa þar mikið. Þannig að þetta er vandasamt. Það er ekki hægt að (Forseti hringir.) segja að það sé bara annaðhvort eða í þessu tilliti frekar en öðru.