144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 88/2014 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

516. mál
[12:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka formanninum fyrir svörin og fjölmörg mál sem ekki er ástæða til að gera að vandræðum í samhengi við heildarhagsmunina sem við höfum af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. En ánægjulegt er að þetta hafi ekki neikvæð áhrif fyrir fyrirtækin sem hér eru starfandi í ferðaþjónustunni.

Ég vil spyrja hvort það væri engu að síður ekki ávinningur í þessum kröfum varðandi fólksflutningabifreiðar sem koma til landsins, t.d. með Norrænu, á vegum erlendra fyrirtækja með kröfum til bílstjóranna, heimilisfesti, þessa hámarkstíma og annarra slíkra atriða, hvort enginn ávinningur sé í því fyrir íslenska ferðaþjónustuaðila að verið sé að gera sömu kröfur til þeirra sem koma hingað með hópferðabíla með ferjum.