144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 88/2014 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

516. mál
[12:39]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef á tilfinningunni að þetta muni ekki hafa mikil áhrif til breytinga hvað varðar hina erlendu ökumenn sem hingað koma. Ef við lítum svo á að þær breytingar sem í þessu felist, þ.e. fyrst og fremst um hvíldartímann og þess háttar, þá held ég að horfa verði til þess að ef þeir koma hingað með Norrænu verði litið svo á að um flutning yfir landamæri sé að ræða og þá eru einfaldlega rýmri reglur til handa erlendu bílstjórunum á erlendu bílunum í boði frekar en þeim innlendu. Hins vegar má segja að þær kröfur um upplýsingar og annað sem þarna eru gerðar og skráning og þess háttar kunni að skipta einhverju máli, en í umfjöllun nefndarinnar held ég að það hafi verið samdóma álit þeirra sem um það fjölluðu að ekki yrði um verulegar breytingar að ræða nema hvað varðar þennan dagafjölda sem ég vék að í máli mínu áðan.