144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[15:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég held að í þeim umræðum sem hér fara fram í andsvörum séum við að ræða miklu stærri mál en hægt er að ræða í tveggja mínútna ræðum, sem varða stóru línurnar og stóru deilurnar sem hafa staðið um hugverkaréttindi á undanförnum árum. Ég lít hins vegar á þetta skref alveg óháð þeim stóru línum, sem mikilvægt skref til að auðvelda aðgengi á forsendum almannahagsmuna. Það finnst mér jákvætt.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um fjölda rétthafa er það skilgreint í tilskipuninni að það geta verið margir rétthafar að ákveðnu verki eða hljóðriti. Tilskipunin er þannig að ef einhver þeirra er auðkenndur og staðsettur, segjum að aðeins einn rétthafi hafi verið auðkenndur og staðsettur, þetta er allt á mjög þjálu tungumáli eins og venjulega, þá er verkið ekki talið munaðarlaust. Þótt ég hafi fyrst og fremst bent á dæmi úr bókmenntunum, af því að ég þekki þær best, er augljóst mál að þegar um er að ræða til dæmis hljóðrit eða kvikmyndir eru þar oft margir rétthafar, það er ekki endilega einn alvitur höfundur.

Það kemur fram í tilskipuninni sjálfri að á rétthöfum sem hafa verið auðkenndir og staðsettir hangir að veita heimildir með tilliti til réttinda sem þeir halda sjálfir, annaðhvort vegna þess að réttindin eru þeirra eða vegna þess að þau hafa verið framseld til þeirra, þannig að þeirra réttarstaða er tryggð allítarlega. Fyrst og fremst er ástæðan fyrir tilskipuninni, eins og ég hef skilið hana við lestur hennar og vinnu í nefndinni, sú að mikilvægt sé að samræma þessa nálgun milli ólíkra ríkja, því að skilgreiningin á munaðarlausum verkum hefur verið allmismunandi. Á því sviði erum við í samstarfi við önnur Evrópuríki og þessi réttindi eiga sér í raun engin landamæri. Þarna (Forseti hringir.) er því verið að reyna að samræma skilgreiningar.