144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[15:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þingsályktunartillagan sem við ræðum hér er tengd frumvarpi sem einnig liggur fyrir þinginu og er nánar tiltekið til meðferðar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og hefur verið til umfjöllunar þar upp á síðkastið ásamt tveimur öðrum frumvörpum um höfundarétt, þar af annað sem varðar lengingu verndartíma, sem að mínu mati tengist þessari umræðu pínulítið og ég fer aðeins meira út í það eftir augnablik.

Þessi tillaga varðar það að ákveðnar stofnanir, svo sem almenningsbókasöfn, menntastofnanir, söfn og skjalasöfn, varðveislustofnanir kvikmynda og hljóðrita og útvarpsstöðvar sem veita opinbera þjónustu, geti tekið stafræn afrit af svokölluðum munaðarlausum verkum sem eru verk sem tilteknar stofnanir hafa gert ítarlega athugun á hver sé höfundurinn. Finnist höfundur ekki verði þau skilgreind sem munaðarlaus verk og þá megi afrita þau stafrænt. Sömuleiðis er höfundum gefinn kostur á því, ef þeir koma fram síðar, að segjast vera höfundarnir — ég hlakka reyndar til að sjá hvernig það er nákvæmlega útfært, hvernig þeir sanna að þeir séu höfundarnir — og geta þá fengið einhvers konar bót fyrir það að verk þeirra hafi verið notuð.

Nú skal ég segja strax að ég er ekki á móti þessu máli, þótt ég vilji vissulega endurskoða höfundarétt í grundvallaratriðum og telji hann að mörgu leyti úreltan eins og hann birtist okkur í löggjöf samtímans, hvort sem það er hérlendis, í Evrópu eða í Bandaríkjunum eða hvar. En þessi reglugerð Evrópusambandsins og frumvarpið sem er til meðferðar hér í þinginu í máli nr. 701, um breytingu á höfundalögum, eru hönnuð til þess að varðveita menningararf. Það er mjög jákvætt og nauðsynlegt markmið og auðvitað þarf að vera hægt að gera það. En maður verður líka að spyrja sig hvers vegna það þurfi sérstaklega að skoða sífellt hvort höfundurinn sé tiltækur eða ekki ef um er að ræða menningararf. Hér er kannski um heldur róttæka spurningu að ræða fyrir marga en mig langar samt að varpa henni fram til umhugsunar. Mikki mús, sem við nefndum áðan, fellur væntanlega undir bandarískan höfundarétt samkvæmt þeim hv. þingmanni sem talaði hér áðan, og Tinni eða hvað eina, eru hluti af menningararfi, þ.e. menningarleg fyrirbæri sem urðu til fyrir mjög löngu síðan og eru þáttur af uppeldi og menningu sennilega flestra hér inni og sennilega flests nútímafólks, og bráðum alls nútímafólks. Maður verður að velta fyrir sér hvers vegna stofnanir á borð við almenningsbókasöfn, menntastofnanir, söfn og skjalasöfn þurfi leyfi til þess að taka stafræn afrit af slíkum menningararfi. Hér birtist ákveðin togstreita milli hefðbundins skilnings á höfundarétti annars vegar og hins vegar almannahagsmuna. Þegar hugverk er búið til, svo sem lag, segjum að ég semji eitt lag á fimm mínútum á gítar, þá er hugmyndin sú að lagið sé einkaeign mín á sambærilegan hátt og ef ég ætti bíl eða tölvu eða eitthvað því um líkt. Það sem ég er að undirstrika er að það er ekki þannig, það er ekki eins, þetta er ekki sama fyrirbærið, það er ekki búið til úr sama efninu, það fer ekki jafn mikil vinna í það og það fer ekki sams konar vinna í það, dreifingin er ekki eins, afhending er ekki eins og sá sem nýtur verksins er ekki eins.

Ef ég á tölvu og ég nota hana þá er ég að nota hana, en ef ég sem lag þá er ég væntanlega að semja það fyrst og fremst fyrir aðra, reyndar sem ég persónulega aðallega fyrir sjálfan mig ef út í það er farið. En ef ég er að semja fyrir aðra þá er það almenningur sem nýtur verksins. Og þegar um er að ræða listform eins og tónlist, kvikmyndir, bækur og sögur og því um líkt þá verður það óhjákvæmilega hluti af hinum svokallaða menningararfi. Fyrir liggur að það er ákveðin togstreita milli réttar einstaklingsins til þess einfaldlega að taka burt þennan menningararf eða takmarka hann með einhverjum hætti. Segjum sem svo að Walt Disney ætlaði bara ekkert að gefa út fleiri Mikka mús-bækur, nú mætti Mikki mús ekkert lengur vera hluti af vestrænni menningu. Eða ef George Lucas mundi ákveða það sama um Star Wars-myndirnar sællar minningar, sem sá sem hér stendur ólst upp við og fleiri ágætir hv. þingmenn. Ætti það að vera í lagi? Að ákveða slíkt ætti að vera hægt samkvæmt núgildandi reglum, nú verður bara ekkert meira Star Wars. Er það eðlilegt ef við reynum að skoða hlutina alveg frá grunni að einhver einkaaðili geti ákveðið það, að nú verði ekki til fleiri sögur um Loga geimgengil, eins og Luke Skywalker heitir á íslensku? Mér finnst það ekki alveg eðlilegt. Mér finnst að við þurfum alla vega að svara þeirri spurningu hvernig við ætlum að líta á þann þátt höfundaréttarins, sem er sú staðreynd að þessi verk tilheyra í alvörunni ekki bara listamanninum. Þau tilheyra menningunni allri.

Athugið að ég er ekki að fara út neinar réttlætingar á því hvernig dreifingarmátinn eigi að vera, það er önnur umræða. En mér finnst mikilvægt að velta þessu upp. Það er ekki bara listamaðurinn sjálfur sem dreifir sínu efni sem lifir í einhverju tómarúmi, og það væri ekkert gagn að honum þannig heldur ef út í það er farið, ekki neitt. Vitaskuld þurfa menn að fá borgað fyrir sína vinnu og það er spurning um viðskiptamódel sem virka. En þetta mál undirstrikar að mínu mati þá staðreynd og við verðum öll að viðurkenna það fyrir okkur að við eigum ekki að hugsa um listform sem einkamál listamannsins, þau varða okkur öll. Þau eru hluti af menningunni og verða hluti af menningararfinum og við eigum að bera virðingu fyrir því að það eru ekki bara peningar sem stjórna öllum heiminum heldur fleiri öfl einnig, þar á meðal listmat almennings.

Ég tel að þessi tillaga tengist á ákveðinn hátt öðru frumvarpi sem er til umfjöllunar í þinginu, frumvarpi sem fjallar um framlengingu á verndartíma hugverka, lengingu á höfundarétti, hversu lengi hann gildi. Nú er eitt áhugavert við höfundarétt og flutningsrétt, sem er að hann rennur út, ólíkt öðrum eignarrétti. Ef ég kaupi tölvu þá á ég bara tölvuna. Ekkert í 50 ár og ekkert í 70 ár, það verður ekkert frumvarp lagt fram um að framlengja þann eignarrétt, ég bara á hana og þannig er það þangað til ég á hana ekki lengur vegna þess að ég sel hana eða gef hana eða eitthvað. En höfundaréttur rennur út og alltaf lengist þessi verndartími. Sumir segja að það sé vegna þess að fólk lifi lengur. Ég held að það sé nú aðallega vegna þess að mjög gömul og mikilvæg verk eru að nálgast það að renna út úr höfundaréttarvernd þannig að Walt Disney og álíka fyrirtæki eiga erfiðara með að verja fjárhagslega hagsmuni sína, ekki menningarlega hagsmuni, athugið, heldur fjárhagslega hagsmuni.

Þessi reglugerð og áðurnefnt frumvarp undirstrika einnig að einhvern tíma hlýtur þessi einkaeign að verða að eign almennings. Einhvern tíma verður Halldór Laxness einfaldlega hluti af íslenskri menningu og ekki hluti af eignarrétti eins eða neins. Brennu-Njáls saga er væntanlega eign okkar allra, við þurfum ekki að borga einhverjum afkomanda í guð má vita hvaða lið til þess að fá að njóta þeirrar sögu og breyta henni ef okkur sýnist og endurdreifa henni ef okkur sýnist og nota hana í tónlist og kvikmyndir ef okkur sýnist, vegna þess að hún er orðin að menningararfi. Hún er einfaldlega ekki og getur ekki lengur verið álitin einkaeign. Ég er í sjálfu sér ekki að ráðast á hugmyndina um höfundarétt heldur benda á að það eru svona spurningar um höfundarétt sem eiga ekki við hefðbundinn eignarrétt og við eigum að hafa í huga þegar við lítum á þessi mál. Þetta mál undirstrikar að þessir þættir eru til staðar.

Ég bar fram tvær spurningar áðan við þann ágæta hv. þingmann sem talaði hér áður um þessa tilteknu reglugerð, í fyrsta lagi hvers vegna söfn ættu að þurfa sérstaka heimild frá höfundi til þess að mega taka stafræn afrit ef verk tilheyrir menningararfi, þ.e. ef það tilheyrir menningararfi, það verður að spyrja að því, jafnvel þótt því sé ekki svarað strax. Og í öðru lagi: Hvers vegna er þetta takmarkað við þessar tilteknu stofnanir? Þá er mikilvægt að við höfum í huga að það eru misjafnir þættir í dreifingu og nýtingu hugverka og kannski sérstaklega listar. Það er dreifing í gróðaskyni, sem er annað en dreifing til þess eins að deila menningunni með öðrum. Sem dæmi, ýkt dæmi bara til að sýna fram á það sem ég á við: Ef ég setti upp heimasíðu þar sem ég væri að selja lög eftir hæstv. tónlistarmann Bubba Morthens og ég væri að græða á tónlistinni hans og léti hann ekki hafa neinn skerf af peningunum, þá væri það annað en ef ég keypti t.d. disk með hæstv. tónlistarmanni Bubba Morthens og mér litist svo fjári vel á tónlistina hans að ég ákvæði að deila henni með hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, vegna þess að mig langaði að hún heyrði þetta lag, þetta er gott lag en mig langar ekki að kaupa annan disk. Það er annað að deila slíku með vinum sínum, hvort sem það er yfir internetið eða ekki ef út í það er farið, til að flækja þetta aðeins meira, og hins vegar því að dreifa efni í gróðaskyni. Við í Pírötum gerum þennan greinarmun. Það er munur á því að dreifa í gróðaskyni og því að dreifa til þess eins að deila menningu nútímans með öðrum.

Síðan er það sem er stundum kallað ólöglegt niðurhal, sem er reyndar samkvæmt minni bestu vitund ekkert ólöglegt, niðurhalið sjálft, dreifingin er kannski ólögleg en ekki niðurhalið sjálft, enn sem komið er alla vega. Þar er líka munur. Það er munur á því að njóta tónlistarinnar sem er í umhverfinu og að dreifa henni. Sem dæmi þá upplifir maður alls konar tónlist ef maður gengur inn á einhvern stað, gengur inn á skemmtistað eða bara niður í bæ eða er heima hjá vini sínum, tónlist sem maður borgar aldrei fyrir og hefur í sjálfu sér ekkert endilega mikla stjórn á því hvaða tónlist það er. Maður gengur ekki um og velur hvaða tónlist er í umhverfinu, sem undirstrikar það aftur að listaverk eru ekki í eðli sínu það sama og veraldlegir hlutir, sem geta bara verið á einum stað í einu. Þetta er allt annað og við þurfum að hugsa um þetta öðruvísi.

Auðvitað er þungamiðjan í þessu öllu saman, vandamálið sjálft sem við erum öll að reyna að leysa, þar á meðal Píratar, er hvernig listamenn geta fengið borgað sanngjarna upphæð fyrir vinnu sína, en við leggjum áherslu á að höfundarétturinn sé þannig að þegar honum er framfylgt sé ekki stólað á það að ganga á borgararéttindi annarra, til dæmis að menn úti í bæ geti flett upp IP-tölunni minni á netinu. Þá er gengið á rétt minn til þess að vera nafnlaus á netinu, sem ég vil meina að sé mjög mikilvægur réttur, menn greinir svo sem á um það, og að ekki sé fylgst með því hvað ég er að skoða á netinu. Þegar ég er í Þýskalandi þá líður mér alltaf hálfilla á netinu því ég þarf að velta fyrir mér: Hver er að fylgjast með því hvert ég er að fara? Ég þarf alltaf að velta því fyrir mér. Ég veit sem tæknimaður hvernig þetta virkar en það er eina ástæðan fyrir því að ég get einhvern veginn huggað mig við það. Ef ég væri ekki tæknimaður þá mundi ég ekkert vita hvernig einhver kemst að því að ég sé að niðurhala einhverju sem ég má ekki niðurhala eða hvort ég sé að skoða einhverjar válegar pólitískar síður eða ekki, sem ég á nú til að gera og geri ef mér sýnist. Ef ég væri ekki tæknimaður og áttaði mig ekki á því hvernig tæknin virkar í Þýskalandi væri ég smeykur við það að sækja mér hluti á netinu, og það er ótækt. En það eru leiðirnar sem þarf að fara til þess að framfylgja hefðbundnum hugmyndum um höfundarétt.

Staðan er sú að höfundaréttur varðar efni sem er löglegt að framleiða, löglegt að dreifa og löglegt að njóta, með þeim tilteknu skilyrðum að maður borgi fyrir það. Það er ólíkt efni sem er hreinlega ólöglegt og réttlætir lögreglurannsókn og aðkomu löggæslukerfisins og réttarfarskerfisins og allan þann kostnað sem því fylgir. Og ástæðan fyrir því að það er ekki hægt að framfylgja höfundarétti á sama hátt og hægt er að framfylgja t.d. banni við ofbeldisefni eða klámefni og því um líku, er sú að slíkt kallar á réttarríkið, löggæslu og réttarfarsaðferðir sem mega alveg kosta eitthvað. En ef menn ætla að framfylgja höfundaréttarbrotum með sama hætti eru bara tvær leiðir mögulegar. Önnur er að leggja í óheyrilega mikinn kostnað við það þannig að það mundi aldrei nokkurn tíma borga sig, og hin leiðin er að gera það auðveldara en á kostnað borgararéttinda og það er það sem við Píratar erum ekki til í. Ef við finnum hins vegar viðskiptamódel, og þau verða til smátt og smátt, sem virka meðfram upplýsinga- og tjáningarfrelsi og borgararéttindum á netinu, þá værum við sennilega fyrsti flokkurinn til þess að gútera það og leggja fram frumvörp um það ef þess þyrfti. En akkúrat núna erum við meira í varnarbaráttu vegna þess að sífellt koma fram hugmyndir um að reyna að framfylgja þessum gömlu hugmyndum um höfundarétt þar sem reynt er að líta á gæði sem búin eru til úr upplýsingum á sama hátt og gæði búin til úr efni, þ.e. áþreifanlegu, veraldlegu efni.

Í þessu kristallast og endurspeglast öll ádeilan um höfundaréttinn. Það er ekki að ástæðulausu að höfundaréttur, sem að öllu jöfnu er heldur þurrt og leiðinlegt umræðuefni, alla vega í eyrum almennings, er orðinn svona mikilvægt umræðuefni. Það er ekki að ástæðulausu að til verða heilu stjórnmálahreyfingarnar í kringum það að endurskoða hann. Það verða ekki til pólitískar hreyfingar til þess að endurskoða húsnæðisleigumarkaðinn, það er þá alltaf í víðara samhengi, byggir alltaf á einhverju grundvallaratriði eins og félagslegu réttlæti eða einhverju því um líku. Og flokkar mundu verða til um að ná fram félagslegu réttlæti og hafa orðið til. Höfundaréttur verður hins vegar tilefni fyrir stofnun pólitískra hreyfinga vegna þess að hann snertir grundvallaratriði samfélagsins og í víðara samhengi hagsmuni listamanna og hugverkafólks. Og meðan ég man, þá er sá sem hér stendur hugverkamaður, ég kann ekkert nema að búa til tónlist, texta og hugbúnað.

Hagsmunir okkar allra hljóta að liggja í því að finna viðskiptamódel sem virkar fyrir alla og tryggir listamönnum og höfundum að hugverkum af öllu tagi viðunandi þóknun fyrir vinnu sína. Það hlýtur að vera sameiginlegt markmið okkar allra. En aðferðirnar sem er beitt hljóta líka að skipta máli. Viðskiptamódel má ekki vera réttlætanlegt á þeirri forsendu einni að það sé það sem mönnum datt í hug fyrir 150 árum, það er ekki nógu gott. Þess vegna eigum við að endurskoða þetta og við eigum að gera það núna.

Þessi tillaga þykir mér undirstrika að það er togstreita milli einkaréttar listamannsins og menningararfsins sem almenningur á væntanlega að njóta. Ég er ekki að segja að annað eigi einfaldlega að trompa hitt, ég er bara að segja að það er togstreita þarna á milli og við eigum að bera virðingu fyrir því, gera okkur grein fyrir því.

Að öðru leyti þegar kemur að þessum þremur tilteknu frumvörpum sem snerta höfundarétt, þar af eitt sem varðar þessa tilteknu tillögu, er þetta sú tillaga sem ég hef hvað minnst út á að setja. Reyndar þætti mér alveg þess virði að ræða hana lengur og betur vegna þess að ég sé líka tækifæri þarna. Hér er lagt upp með að heimila afritatöku umfram það sem hefði talist eðlilegt út frá hefðbundnum hugmyndum og það er gott, mér finnst það gott. Ég er ekki fullkomlega sannfærður um að þessi tiltekna útfærsla sé sú hárrétta, en ég sé alla vega engan skaða enn sem komið er gagnvart borgararéttindum, ég sé ekki að þetta krefjist þess að menn gangi á borgararéttindi eða fari út í ægilegan kostnað. Ég verð þó vissulega að gera athugasemdir við það að hér er fullyrt að þetta muni ekki kosta neitt eða ekki hafa nein veruleg áhrif á útgjöld ríkisins. Ég tel það ekki alveg rétt, ég held að það hljóti að falla til einhver kostnaður einfaldlega vegna þess að þetta þarf utanumhald eins og regluverk almennt, sérstaklega ef menn ætla að reyna að hafa alþjóðlegt samstarf um hvað er talið til munaðarlausra verka og hvað ekki.

Að lokum vil ég segja á þessum litla tíma sem ég hef, eða næstum því að lokum, næstsíðast ætla ég að leggja fram hugmynd eingöngu til þess að leyfa fólki að hugsa um þetta í aðeins víðara samhengi. Hvers vegna er ekki settur á fót miðlægur gagnagrunnur þar sem eru sett inn verk frá Evrópusambandinu sem eru munaðarlaus, sannanlega munaðarlaus, þar sem öllum er boðið upp á að nýta þau verk aftur og aftur? Ef um væri að ræða veraldleg gæði svo sem brauð eða eitthvað því um líkt þá mundum við að sjálfsögðu gera það til þess að spara, til þess að spara kostnað, til þess að við þyrftum ekki að framleiða meira heldur gætum nýtt það sem þegar væri til. Það gerum við ekki þegar kemur að höfundaréttinum, vegna þess að þá er markmiðið ekki að nýta það sem þegar er til, heldur að framleiða meira. Og þarna er annar grundvallarmunur á því hvernig hugverk virka ólíkt veraldlegum eignum. Allt þetta hlýtur að vera okkur tilefni til þess að reyna að búa til umgjörð sem tekur mið af eðlismuninum sem ríkir á milli hugverka og veraldlegra eigna í stað þess að þverskallast sífellt við og reyna sífellt að líta á hugverk eins og þau séu veraldlegir hlutir. Þau eru það einfaldlega ekki. Og núna þegar dreifing og sum framleiðsla er orðin svo gott sem ókeypis, það er orðið svo gott sem ókeypis að rita eitthvað niður, það kostar bara tíma og vinnu, en tækjabúnaðurinn kostar ekki mikið og hann er mjög vel endurnýtanlegur, dreifingin kostar sama og ekki neitt, þá getum við ekki byggt á sömu gömlu viðskiptamódelunum.

Að því sögðu þá líst mér alls ekki illa á þessa tillögu, en vildi þó óska þess að meiri tími væri eftir af þingi til að ræða þetta mál sérstaklega í samhengi við öll hin.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.