144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[16:06]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit að pírötum hefur verið mjög umhugað um borgaraleg réttindi, en ég verð að viðurkenna að þegar þeir tjá sig um þau er ég alltaf hálfringlaður. Ég er alveg jafn ringlaður eftir þessa ágætisræðu og er að velta fyrir mér ákveðnum prinsippum. Af hverju á að gera greinarmun á vernd eignarréttinda eftir því hver birtingarmyndin er, hvort það er hugverk eða efnislegt? Það er engin lógík í því. Ég veit að það er miklu erfiðara að vernda eignarréttinn á hugverkum en efnislegum eignum, en ef mönnum er umhugað um þau réttindi gildir auðvitað sama prinsippið.

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson talar um að einakeignarrétturinn eigi að hverfa með tímanum þegar kemur að hugverkum, ef ég skildi hann rétt, (Gripið fram í.) vegna þess að hér er kominn menningararfur og ef ég man rétt var notað orðið „almannahagsmunir“. Hver á að ákveða þá almannahagsmuni? Eru það almannahagsmunir að við fáum að njóta Mikka músar áfram? Ég efast um að það séu almannahagsmunir.

Ég er að reyna að skilja af hverju menn gera greinarmun á þessu. Er það af því að það snýr að áhugaefni pírata eða er raunveruleg lógík á bak við það, önnur en „mér finnst“?