144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[16:33]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég geti verið alveg sammála hv. þm. Birgittu Jónsdóttur um að það eru ákveðnir þættir í sambandi við þennan verkferil EES-mála sem við gætum endurskoðað í ljósi reynslunnar nú að þessu kjörtímabili hálfnuðu. Raunar hefur það fyrirkomulag sem er á EES-málum verið við lýði nokkuð lengur, megnið af síðasta kjörtímabili hygg ég að menn hafi líka reynt að fylgja þessu verklagi, þannig að það er komin allnokkur reynsla á það hvernig þetta gengur.

Í sumum efnum held ég að við séum kannski að eyða of miklum tíma í að ýta pappírum á milli okkar. Ég held að við verðum að horfast í augu við það að í sumum tilvikum erum við að gera það án þess endilega að kafa ofan í efnisatriði máls. En ég held, og er sammála hv. þingmanni um það, að það ætti að vera verkefni fyrir okkur í utanríkismálanefnd — væntanlega verður það utanríkismálanefnd sem hefði frumkvæðið að því, en forsætisnefnd þyrfti væntanlega að koma að því líka — að skoða þetta verklag. Það ætti að vera markmið okkar að gera það að verkum að við höfum betri færi á því að fara efnislega ofan í þau mál sem raunverulega skipta máli og raunverulega er hægt að hafa áhrif á, að við eyddum minni tíma í yfirferð yfir mál sem við í sjálfu sér munum ekkert hreyfa við þegar upp er staðið.

Við þurfum einhvern veginn að búa til síu til þess að flokka að þessu leyti. Ég hef ekki hér, svona þar sem ég stend í þessum ræðustól, svörin á reiðum höndum varðandi það hvernig við eigum að gera það, en ég held að við hljótum að gera það þannig að við nýtum tímann betur í þessum EES-málum en við höfum verið að gera og fáum þá kannski meira út úr þeirri vinnu sem við leggjum í þau.