144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[16:35]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Við hv. þm. Birgir Ármannsson erum oft og tíðum sammála um verklag í nefndum og ég er mjög ánægð með að við séum sammála um að finna þurfi síu, það mætti jafnvel hafa einhvers konar undirhóp; í allsherjar- og menntamálanefnd er til dæmis undirhópur sem fer yfir umsóknir um ríkisfang. Þeir sem hafa sérstaka unun og gleði af því að lesa sig í gegnum EES-mál gætu verið þar, það gæti verið skammarkrókur fyrir óþekka þingmenn, ef ég slæ á létta strengi.

Ég er sammála því að við þurfum að hafa tíma til að kafa almennilega ofan í þau mál sem raunverulega skipta máli. Ég er lítið hrifin af pappírstilfærslum í þeim tilgangi einum að sýna að maður hafi verið að færa til einhverja pappíra, færa til einhverjar upplýsingar, og síðan getur maður voðalega lítið gert við þær upplýsingar. Mér finnst það ótrúleg sóun á tíma og hef miklu meiri áhuga á því að tryggja að þessi undirhópur gæti þá miðlað þessum málum til fagnefndanna og látið þær bera ábyrgð á þeim alla leið þannig að ekki sé alltaf verið að nota utanríkismálanefnd sem einhvern stökkpall í þessi mál.

Það er nú bara þannig með allt verklag að við erum menn að meiri ef við viðurkennum að hægt sé að gera hlutina betur. Mér finnst það bara hið besta mál og vona að við náum þverpólitískri sátt um að finna lausnir á þessu.