144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[16:39]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það hefur verið töluvert kaos á þessum vinnustað undanfarnar vikur. Í gær var gert samkomulag um að taka mjög umdeilt mál af dagskrá og setja óumdeild mál á dagskrá, þingmenn hafa væntanlega allir séð þá miklu dagskrá, (Gripið fram í: Að mestu.) að mestu nefnilega, og þess vegna hefði nú verið mjög gott ef við þingmenn hefðum getað fengið að sjá dagskrána í dag þegar var verið að semja um þetta vegna þess að það er mjög hlutlægt hvernig mál eru óumdeild. Eins og í tilfelli Pírata þá megum við ekki skila inn nefndaráliti minni hlutans ef við erum bara með áheyrn í nefnd, þar af leiðandi eru sum mál hér sem við hreinlega megum ekki skila inn nefndaráliti af því að við erum aðeins áheyrnarfulltrúar, og mér skildist að eingöngu væri tekið tillit til nefndarálita, þegar það var ákveðið, hvort ágreiningur væri eða ekki, bara svo því sé haldið til haga.

En varðandi málin sjálf, það er nefnilega mál í allsherjar- og menntamálanefnd um nákvæmlega það sama. Þetta mál heimilar að fella megi burt þessi ákvæði og heimila það að munaðarlaus verk séu gerð aðgengileg í almannaþágu. Mér finnst svolítið skringilegt að vera að fjalla um þetta mál hér, það átti í raun og veru að fara beint í atkvæðagreiðslu en við vissum það ekki fyrr en við sáum dagskrána í dag, og svo er verið að fjalla um nákvæmlega eins mál eða útfærsluna á þessu í allsherjarnefnd. Það sem ég óttast er að eitthvað skarist á milli. Það er bara svona upp á góða stjórnsýslu að gera. Ég skal síðan útskýra í síðara andsvari hin málin.