144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[16:44]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Þau mál sem eru í allsherjar- og menntamálanefnd um höfundaréttinn eru mjög ólík í eðli sínu. Þetta mál per se er gott, ég mundi bara vilja hafa það á hreinu hvort við megun til dæmis bæta við að ekki megi setja höfundarétt á afritun og að báknið í kringum þetta verði ekki þannig að það verði dýrt að fá aðgengi að þessu stöffi sem ætti að vera í almannaþágu eða í því sem kallað er „public domain“. Hitt málið sem er mjög umdeilt í rauninni og er í allsherjar- og menntamálanefnd, þ.e. um höfundarétt, er allt öðruvísi. Það snýr að framlengingu þess hve lengi höfundaréttur er í gildi eftir að maður er dauður, sem er ekki beint að fara að gagnast viðkomandi listamanni í listsköpun nema hann sé í einhverju eftirlífi sem við vitum ekki um og er í raun og veru eingöngu fyrir þessa stóru rétthafa. Þeir hafa einhvern veginn reynt að réttlæta þennan furðulega gjörning — ég er bara komin í ræðu, ég hef alveg níu mínútur í andsvör — þannig að það hangir ekki í þessari samfellu.

Ég held að við þurfum virkilega að skoða vel hvernig við vinnum þessi EES-mál og laga það í haust. Á það er komin reynsla, mér hefur fundist oft og tíðum koma upp mál sem við annaðhvort náum ekki að kynna okkur nægilega vel af því að það er ekki í samhengi við orðræðuna, þau týnast svolítið í nefnd, á meðan fagnefndirnar hafa miklu meiri forsendur til að fara dýpra ofan í málin. Ég hef því áhyggjur af þessu verklagi. Í sjálfu sér er þetta mál ekkert vont, (Forseti hringir.) en það má bara verða miklu betra.