144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[17:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka formanni velferðarnefndar fyrir framsöguna fyrir nefndarálitinu og held að hér sé á ferðinni ákaflega mikilvægur málaflokkur, slysavarnirnar sérstaklega. Við höfum náð gríðarlegum árangri í slysavörnum á sjó, ekki síst kannski þegar við náðum þeim áfanga að hér urðu engin dauðaslys á sjó árið 2008, hygg ég að hafi verið, sem hefði einhvern tíma þótt ótrúlegur árangur, en við getum enn gert miklu betur í slysavörnum á landi.

Ég vildi spyrja þingmanninn eftir þessum athyglisverðu ábendingum Vinnueftirlitsins hvort fram hafi komið afstaða ráðuneytisins eða ráðherrans til þeirra efnisbreytinga sem þar var verið að leggja til eða þingmanna stjórnarmeirihlutans í nefndinni. Hins vegar vildi ég inna þingmanninn eftir því sem lengi hefur mátt furðu gegna um fjárhæð dagpeninga, hvort það hafi ekki með neinum hætti verið rætt af hálfu ráðherrans við 1. umr., ráðuneytisins fyrir nefndinni eða í umræðu meðal nefndarmanna að nauðsynlegt væri að hækka verulega þessar dagpeningagreiðslur og hvort það hafi ekki verið gefinn neinn ádráttur um að á því hefði verið tekið á þessu kjörtímabili.