144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[17:25]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú svo að þegar þetta mál var til umræðu í nefndinni var enginn rosalegur ágreiningur, langt í frá. Við ræddum við ýmsa aðila, bæði ráðuneytið og Sjúkratryggingar, sem eðlilega voru íhaldssamari en Vinnueftirlitið. En það var kannski mat okkar að eðlilegt væri á þeim tímapunkti að breytingartillögur sem þessar kæmu frá þeim aðilum sem best þekkja. Þær komu auðvitað inn í nefndina frá Vinnueftirlitinu en það stendur fyrir að endurskoða á þessi lög og við töldum málefnalegt að það yrði gert af nefnd með aðilum sem best til þekkja og við við í nefndinni værum ekki að gera á þeim tímapunkti.

Ég óskaði síðan eftir yfirliti yfir þessa dagpeninga og í raun og veru var, kannski af sömu ástæðum, ákveðið að hækka þær fjárhæðir til samræmis við það sem þær hafa hækkað á milli ára, en það var ekki farið í alvöruumræðu um að hækka þær almennilega, enda er það hluti af þeirri endurskoðun sem fram undan er.

Það sem er líka athyglisvert er að þegar ég bað um upplýsingar um fjölda einstaklinga með slysadagpeninga var ekki hægt að fá þær, eða það krafðist umtalsverðrar vinnu. Ég sagði að það væri allt í lagi, þær upplýsingar mundu ekki hafa afgerandi áhrif fyrir afgreiðslu frumvarpsins og mér finnst óþarfi að setja fólk í vinnu sem hefur ekki mjög mikilvægan tilgang, en þetta þarf náttúrlega að lagfæra. Við þurfum að eiga alvörutölfræði um þessi mál.