144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[17:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má taka undir að það er auðvitað fyrsta skrefið til að vinna frekar á slysum og atvinnutengdum sjúkdómum að skráningin á þeim sé í lagi, þannig að menn geti áttað sig á umfangi vandans og gripið til aðgerða í samræmi við það. Mér finnst athyglisverð tillaga Vinnueftirlitsins um að gera atvinnutengda sjúkdóma bótaskylda og reyna að ná skráningunni úr þessum 20 tilvikum og upp í það sem eðlilegt mætti teljast miðað við nágrannalöndin, kannski 200–250 tilfelli, þannig að hægt sé að átta sig á því hvað orsakar þessa sjúkdóma og gera áætlanir um hvernig megi bregðast við því og reyna að varna því að fólk veikist og slasist við vinnu sína, miklu frekar heldur en orðið er.

Ég spyr hvort það hafi verið aðrar megin- eða stærri tillögur sem Vinnueftirlitið hafi haft í því skyni heldur en sú að gera atvinnutengda sjúkdóma bótaskylda.

Og síðan áfram aðeins um dagpeningana. Mér hefur að minnsta kosti virst það vera svo að það hversu lág fjárhæð dagpeningarnir eru verði í raun og veru til að ýta fólki yfir í örorkumat, endurhæfingarlífeyri miklu fyrr en ástæða væri til, vegna þess að fólk stendur einfaldlega frammi fyrir því að það veikist eða slasast og sér að það fær enginn lifað af dagpeningunum eins og þeir eru og er þess vegna tilneytt til að sækja í raun um varanlegri úrræði eins og endurhæfingarlífeyri eða jafnvel örokulífeyri.