144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[18:09]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom inn á það, ef ég skildi hann rétt, að kerfið sem við höfum er ótrúlega mikill bútasaumur. Því hefur verið breytt í gegnum árin og fáir skilja það ef einhverjir í heildina. Hann nefndi réttilega að það þýddi meðal annars að réttindi þeirra sem eiga að fá bætur frá kerfinu væru ekki trygg. Hv. þm. Pétur Blöndal og nefnd hans, eins og hv. þingmaður nefndi, er að færa þennan bútasaum í heildstæðara fyrirkomulag. Mig langar að spyrja þingmanninn hvað honum finnst, ef hann þekkir eitthvað til vinnu þess hóps, og hvernig honum sýnist ganga og hve langt sé komið að færa þennan bútasaum yfir í heildstætt kerfi.

Þetta skiptir miklu máli í ljósi þess að þrýstingurinn almennt á öryggisnetið og á velferðarkerfið mun aukast gríðarlega á næstu áratugum. Það eru tvær stórar ástæður. Önnur er sú að meðalaldur þjóðarinnar er að hækka. Hin er sú að tölvur og róbótar eru að taka yfir störf. Við erum þegar í þeirri stöðu að vöxtur á sér stað án sköpunar nýrra starfa í miklu meira mæli en við höfum þekkt. Þessi þróun verður mun hraðari og verður mikið um hana fjallað þannig að svona heildstætt kerfi, sem tekur á og gerir allt þetta bótakerfi og velferðarkerfi og öryggisnetið skilvirkara, er nokkuð sem mun verða mikill þrýstingur á að skapa.

Mig langar að spyrja þingmanninn hvort honum sýnist Péturs Blöndals-nefndin færa þetta í rétta átt frá bútasaumi í meira heildstætt kerfi og hvernig hann mundi sjálfur vilja sjá þetta kerfi þróast.