144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[18:13]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi aldrei fengið betra svar við spurningu hérna í ræðustóli. Þingmaðurinn er ótrúlega skýrmæltur. Hann talar um sjálfvirkni, það er nákvæmlega orðið sem mig vantar alltaf í þessari umræðu þegar ég er að tala um þessa hluti. Hann svaraði fyrir fram spurningunum sem mig langaði að koma með. Það kemur mér þægilega á óvart.

Það er nákvæmlega þetta: Verðmætasköpunin er takmörkuð, fjármunir þýða að menn verða að forgangsraða þeim einhvern veginn — það er akkúrat þetta — með aukinni auðlegð þjóðanna.

Mig langar að spyrja þingmanninn, hann er svo talnaglöggur. Ég var að skoða þetta um daginn og kaupmáttur á mann á Íslandi hefur aukist. Ef ég fer rétt tölur þá gæti hann hafa orðið helmingi meiri á síðustu 20 árum. Hefur þingmaðurinn tilfinningu fyrir þessu? Þetta mun halda áfram og það er nákvæmlega þessi sjálfvirkni með tölvum og róbótum sem er mikið fjallað um núna. Ég las skýrslu frá Oxford 2013 um þetta efni þar sem er talað um að á næstu 20 árum séu góðar líkur á því að 50% af störfunum verði tekin af þessum aðilum og ný störf verði ekki til í sama mæli þannig að þrýstingurinn verður ofboðslega mikill. Það er svo ofboðslega mikið kall eftir því að menn finni skilvirkari leiðir en verðmætin verða einmitt meiri til að fara í skilvirkari leiðir. Mig langar að heyra meira hug þingmannsins í þessum efnum, hann er mjög skýr hvað þetta varðar. Hvað sér hann fyrir sér eins og núna þegar mikið ákall er um skilyrðislausa grunnframfærslu? Í The Economist segir að við séum ekki alveg kominn á þann stað að við höfum efni á því en það kemur að því og þegar róbótarnir eru farnir að vinna störfin okkar og tölvurnar, eða helminginn af þeim, á næstu 20 árum þá verða til verðmæti til að þetta verði mögulegt. Hvað segir þingmaðurinn um það? Eru til verðmæti í dag (Forseti hringir.) til þess að alla vega slysatryggingar falli undir það að allir séu tryggðir (Forseti hringir.) þannig að við þurfum ekki að fara í gegnum allar þessar flóknu reglur?