144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[18:18]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Megnið af því sem mig langaði að ræða í þessari ræðu er ég búinn að fá mjög skýrt út úr andsvörum við hv. þm. Helga Hjörvar. Ég vil samt taka saman og fara aðeins dýpra í þá þætti.

Við erum að ræða slysatryggingar. Maður fer í gegnum frumvarpið og það eru krókar og kimar þarna, undantekningar o.s.frv. Eins og þingmaðurinn nefndi áðan þarf að forgangsraða þegar verðmæti eru takmörkuð, þegar kemur að velferðarkerfinu, að bótakerfinu, að öryggisnetinu, og það er það sem hefur verið gert. Þess vegna er þetta kerfi flókið og það er að miklu leyti til bútasaumur. Eins og hv. þingmaður nefndi þá skilja fáir það að fullu, ef þá einhver.

Eins og hv. þingmaður nefndi þýðir það náttúrlega, þegar menn skilja kerfið ekki, að réttindi fólks fara forgörðum; fólki finnst kerfið gerræðislegt og finnist það svikið. Það er ekki gott að byggja samfélag þannig að fólki finnist kerfið sífellt vera að svíkja sig. Eitt af því sem ég hef tekið eftir í þessu starfi er að fólk er gríðarlega óánægt með Tryggingastofnun sem dæmi, finnst hún alltaf vera að svindla á sér. Á síðasta ári bað ég, ásamt þingmönnum úr öllum flokkum, um skýrslu um hvaða leiðir öryrkjar hefðu til að sækja rétt sinn innan stjórnsýslunnar ef þeim fyndist á sér brotið. Skýrslan kemur og samtök öryrkja, fjölmörg samtök sem ég hafði samband við, voru ekki ánægð með samantektina. Það virðist ekki vera neinn sem hefur heildaryfirsýn yfir þessi mál, einmitt því sem skýrslan frá ráðherra, sem var gerð að beiðni þingmanna, átti að skila.

Hvers vegna er þetta svona mikilvægt? Þegar við erum með bútasaumskerfi af þessu tagi, sem enginn veit almennilega hverju skilar, þá eru það ekki bara réttindi sem fara forgörðum, það eru ofboðslegir fjármunir sem fara forgörðum. Það er ofboðsleg óskilvirkni, tvítekning og kærur o.s.frv. þannig að kerfið verður ofboðslega dýrt. Þetta verður vítahringur. Menn fara af stað í bútasauminn af því að þeir hafa ekki nógu mikla peninga til að gera annað en út af bútasaumnum verður kerfið það flókið að það verður alltaf kostnaðarsamara og kostnaðarsamara, þetta er ákveðinn vítahringur sem í raun mætti skýra með orðatiltækinu: „Það er dýrt að vera fátækur“.

Fram undan er, eins og við, ég og hv. þm. Helgi Hjörvar nefndum í samtali okkar rétt áðan, í andsvörum, að verðmætasköpunin verði sífellt meiri og það er þá spurning hvernig hún skiptist. Sú aukna verðmætasköpun mun fela það í sér að við verðum ekki lengur svona fátæk og þurfum ekki lengur að vera í þessum bútasaumi og getum frekar farið í heildstæðari kerfi. Í skýrslu frá Oxford árið 2013, um sjálfvirkni starfa — ég held hún heiti Automation of Jobs, hún var tvisvar tekin upp sem leiðaragrein á síðasta ári í The Economist — er fjallað um það hvernig tölvur og róbótar munu taka yfir allt að 50% af störfum, eins og við þekkjum þau, á næstu 50 árum á meðan fá ný störf eru að verða til. Í dag er það þannig að þetta mun færast í vöxt sem mun þýða að ef tölvur og róbótar styrkja ekki við starf fólks verður það atvinnulaust eða þarf að sætta sig við lægri laun af því að það er alltaf í samkeppni við tölvu eða róbóta sem gætu tekið starfið.

Þetta veltur á ákveðnum þáttum, eins og kemur fram í skýrslunni, hve dýrt verður fjármagn og hve dýrt er í vinnuaflið; og vinnuaflið verður alltaf að lækka kröfurnar þangað til fólk missir á endanum vinnuna og fer á atvinnuleysisbætur. Þið getið ímyndað ykkur á 20 árum, þó að það væru 25 ár, þrýstinginn af því að helmingurinn af vinnuaflinu færi á atvinnuleysisbætur; og það mun taka lengri tíma en nú er fyrir það fólk að komast aftur inn á vinnumarkaðinn. Þrýstingurinn sem af þessu skapast þýðir ákall og kröfur um að fundin verði meiri skilvirkni í því að stýra kerfinu. Þá verðum við orðin ríkari þannig að við verðum ekki lengur í þessari sömu fátæktargildru sem kerfi, við þurfum ekki lengur að vera í bútasaumi. Við getum farið í heildstæðari lausnir og ein af þeim lausnum sem The Economist nefnir er skilyrðislaus grunnframfærsla, þ.e. að allir fái ákveðin borgaralaun. Þetta er hugmynd sem bæði fólk á vinstri kantinum og hægri kantinum er farið að hugleiða alvarlega. The Economist tekur þetta fyrir og er með margar málsgreinar um þetta, að þetta verði ein af þeim lausnum sem verði skoðaðar. Þetta hefur verið skoðað í Sviss. Þetta er eitt af því sem andófshreyfingin á Spáni — sem nú er orðin stjórnmálahreyfing, var að vinna stóran sigur — hafði sem sitt stefnumál þannig að þessi krafa er komin til að vera.

Eftir því sem meiri verðmæti verða til, með þessari sjálfvirkni, verður þetta mögulegt. Það verður mögulegt að hafa þannig kerfi að allir fái bara ákveðin grunnlaun. Eins og ég sagði áðan, hægri og vinstri menn eru hrifnir af þessu. Vinstri menn eru náttúrlega hrifnir af þessu, það er blautur draumur kommúnismans að allir fái grunnframfærslu og grunnþjónustu. Hægri menn eru hrifnir af þessu vegna þess að þetta þýðir að við þurfum ekki lengur alla þessa „bjúrókrasíu“, við þurfum ekki lengur allar þessar undantekningar, við þurfum ekki lengur þessar ofboðslegu flækjur sem við höfum hingað til þurft að sætta okkur við út af því að við höfum verið fátæk. Þetta er það sem við getum staðið frammi fyrir.

Varðandi slysatryggingarnar sem við ræðum núna, svo að ég kynni þær inn í þetta í stóra samhengi, þá er þetta flókið og með undantekningum o.s.frv. En það sem ég mundi vilja vita er hvort við höfum ekki í dag — þó við höfum ekki efni á að borga grunnframfærslu í dag þá gætum við gert það eftir 20 ár. The Economist segir að þetta sé enn of dýrt. Ég sá nýlega grein, ég held að það hafi verið fyrir helgina, á föstudaginn síðasta, þar sem þeir tóku þetta saman og sögðu: Nei, við höfum ekki alveg efni á þessu strax. En það kemur að því, kannski eftir 10 ár, kannski 15. Þá er líka krafan orðin það mikil, þá er þrýstingurinn orðinn það mikill á velferðarkerfið, á öryggisnetið, að það verður það sem verður ofan á, við förum að sjá þetta í hinum og þessum löndum. En höfum við ekki í dag efni á því, í staðinn fyrir að vera með þessar flóknu reglur í kringum allar þessar slysatryggingar, að það séu bara allir slysatryggðir?

Ég nefni heilbrigðiskerfið. Við greiðum rosalega háa skatta í landinu, hvers vegna þarf fólk þá að hafa fjárhagslegar áhyggjur ef það veikist? Það á ekki að vera þannig, við höfum alveg efni á því að hafa það ekki þannig. En svo er það spurning með slysatryggingarnar, hvort við höfum efni á því ef allir slasa sig.

Ég var að taka heimilistryggingarnar og tryggingapakkann allan í gegn í fyrsta skipti — ég er búinn að vera líftryggður lengi fyrir börnin, en tók aðrar tryggingar inn um jólin. Ég var að skoða það samhliða fjárlögunum, varðandi heilbrigðiskerfið, hvað það kostar ef þú þarft að hafa fjárhagslegar áhyggjur og hvað geturðu raunverulega tryggt varðandi heilbrigði hér á Íslandi. Þetta eru ekki ofboðslega háar upphæðir ef þetta væri tekið í gegnum skattana á alla og þetta væri samþætt og þetta væri heildstætt. Ég held að íslenskt samfélag hafi efni á þessu í dag, að allir séu bara slysatryggðir, þurfi ekki að hafa fjárhagslegar áhyggjur af því ef illa fer með heilsu þeirra, líkama þeirra, að það sé ekki hægt að tryggja, tryggingafélögin geta séð um eignir eins og þau gera í dag. Þetta er eitthvað sem ég ætla að skoða og halda áfram að spyrja þingmenn að í þessu máli en framtíðin getur verið ansi góð hvað þessa þætti varðar.

Við erum að verða ríkari sem þjóð. En það skiptir máli og það er eitt af því sem við tökum eftir — allir eru að tala um að hægri/vinstri sé dautt, og það er vissulega í ákveðinni lægð núna — að það sem gerist með sjálfvirkni í öllum þessum þáttum, þegar störfin hverfa, er að fleiri verða atvinnulausir og launin lækka; launin hækka til þeirra sem geta nýtt sér þessa sjálfvirkni í starfi, alla sjálfvirkniþróunina. Þetta kemur allt fram í The Economist, samantektin á þessu, og „return of capital“, það sem fjárfestar fá til baka, fer upp út af þessu, þú kaupir þessa róbótísku sjálfvirkni fyrir þetta, þannig að misskipting á eftir að aukast eins og hún gerði í iðnbyltingunni. Misskipting mun aukast og hægri/vinstri mun koma aftur inn. Það eru kannski 10 ár í það að við förum að finna fyrir því.

Á sama tíma erum við, held ég, miklu betur stödd til að takast á við þetta. Við erum miklu upplýstari. Við erum miklu betur tengd. Við erum miklu aktífari pólitískt. Við erum með miklu meiri kröfur um að fá að taka þátt í hlutunum. Við erum með miklu betri aðgang að upplýsingum um það hverjir fara með völd og misfara með völd og peningana okkar þannig að ég er bjartsýnn.