144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[18:30]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er eina gagnrýnin sem hefur komið fram hvað þetta varðar en ef allir fá það er líka hægt að taka meira af toppnum, sem jafnast út. Ef menn fá há laun borga þeir meira inn í hina sameiginlegu púllíu sem skilar því síðan inn. Þetta eru að því leytinu til sömu peningarnir þar. Það sem upp á stendur er þá tekið inn á öðrum forsendum, t.d. af fjármagni, landi, auðlindum og hinu og þessu, af fyrirtækjum o.s.frv., þannig að peningarnir skila sér.

Það sem við græðum er að öll sóunin í óskilvirkninni, þessari óskilvirku „bjúrókrasíu“ sem hefur einmitt verið nauðsynleg til þess, eins og þingmaðurinn segir, að setja upp alls konar fyrirkomulag og alls konar kerfi til að tryggja að peningarnir skili sér til þeirra sem mest þurfa á þeim að halda, en það eru alls konar aukaverkanir af því kerfi. Það er mjög óskilvirkt, það er ógegnsætt og það þýðir líka að það eru alls konar skilyrði sem þeir sem þurfa að nýta sér öryggisnetið þurfa að uppfylla. Við höfum tekið eftir því að til dæmis öryrkjar eru alveg brjálaðir yfir því hvernig farið er með friðhelgi einkalífs þeirra. Það eru alls konar réttindi sem menn þurfa að fórna. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því lengur með borgaralaununum.