144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[18:31]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Gott og vel, við þurfum þá einhvern veginn að fjármagna kerfið. Mig langar að athuga hvort ég hef skilið hv. þingmann rétt með að það væri þá ein leiðin að setja einhvers konar hátekjuskatt á þá sem eru á efsta skalanum til að ná peningunum inn í kerfið. Ég spyr vegna þess að mig langar að skilja þá hugsun hvernig kerfið er fjármagnað.

Svo er annað sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni, sem snýr að sjálfvirkni. Ég held að það sé alveg rétt að það eru að verða til alls konar róbótar og ýmislegt sem getur létt okkur lífið en ég velti því líka fyrir mér hvort ekki sé eitthvert jafnvægi sem þurfi að ná þar, hvort það sé hreinlega samfélagslega gott að útvista störfum í of miklu magni til véla því að þó svo að þær geti framkvæmt einhvern tiltekinn verknað þá annars vegar tapast störfin sem vélarnar taka yfir og hins vegar mannlegt samneyti þar sem einstaklingar eru í samskiptum við aðra og eru þar með í einhvers konar þátttöku og kannski sérstaklega ef við lítum á fatlað fólk í samhengi við þessa umræðu, sem að hluta til getur átt það á hættu að vera félagslega einangrað, hvort við þurfum ekki að vera á varðbergi þarna, þótt tæknin geti létt okkur lífið þá megi það ekki ganga of langt.