144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[18:40]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég hvet þingmanninn og mun vera með honum í því að sjá til þess að þetta mál verði flutt aftur og komist á dagskrá því að mér finnst þetta mjög spennandi umræða. Ég er ekki að segja að ég sé beinlínis hlynnt þessu, en ég er hlynnt hugmyndafræðinni.

Varðandi þessa rannsókn þá sá ég einmitt vísað í hana og hið frábæra upplýsingasvið Alþingis var náttúrlega ekki lengi að galdra hana fram. Þetta var stór úttekt, evrópsk, mörg Evrópulönd — ég man ekki hvort það voru 18.000 manns eða hvað, en það sýndi sig að þeim mun öflugri velferðarkerfi sem eru í ríkinu þeim mun meira vill fólk vinna. Spurt var: Mundirðu vilja vinna þó að þú þyrftir þess ekki, þó að það væri þér ekki efnahagsleg nauðsyn? Það er mjög áhugavert að það er bein fylgni í þessu. Um leið og fólk finnur fyrir öryggi, þá kannski eykst samfélagsleg ábyrgð af því að þú veist hve mikils virði er að eiga öflugt og gott samfélag.

Breytingar sem verða á uppbyggingu hagkerfisins og framleiðslunni og öllu þessu munu kalla á miklar samfélagsbreytingar. Og við höfum þegar orðið vitni að misskiptingu eigna sem er að verða þannig að það er nánast óþolandi. Í stað þess að arðurinn af auðlindunum renni að megninu til til örfárra einstaklinga gætum við lagt hann í sjóð eins og gert er í Kanada að einhverju leyti. Þetta er auðvitað það sem koma skal. Þetta er það sem íslenskur almenningur kallar eftir, meðal annars í gegnum kröfuna um breytingar á stjórnarskrá og auðlindaákvæðið. Það er ákveðinn angi af hugmyndinni um borgaralaun þó að það sé dálítið langt þar á milli.