144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[19:08]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann sem einu sinni var hæstv. heilbrigðisráðherra hver framtíðarsýnin er að hans mati og hvað það kostar samfélagið annars vegar að slysatryggingar séu almennt fastar, þær séu fyrir alla, að þegar maður slasast þá þurfi maður ekki að hafa þessar fjárhagslegu áhyggjur, og hins vegar varðandi heilbrigðiskerfið í heildina, að þegar fólk verður veikt og þarf að sækja sér þjónustu þá þurfi það ekki að hafa fjárhagslegar áhyggjur. Skattar í þessu landi eru mjög háir og skattfénu er ekki forgangsraðað í fyrsta flokks heilbrigðiskerfi. Nú eru hjúkrunarfræðingar farnir í verkfall eftir að læknar fóru í verkfall og 90% landsmanna vilja forgangsraða í fyrsta flokks heilbrigðiskerfi, óháð flokki, óháð hvar þeir búa á landinu, óháð efnahag, óháð menntun. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi þessar tölur eða einhverjar grófar tölur um hvað það kosti að þetta sé bara partur af öryggisnetinu í samfélaginu, ef maður verður veikur eða slasast þá þurfi maður ekki að hafa fjárhagslegar áhyggjur. Hafandi þær tölur getur maður séð fram í tímann, hvort við höfum efni á því núna eða hvenær það gæti gerst.