144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[19:19]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það skipti einmitt mjög miklu máli að við séum með góða og vandaða skilgreiningu á því hvað slys er og að við tökum sameiginlega ábyrgð á því að bæta þeim sem verða fyrir slysum það tjón og skapa þeim framfærslu á meðan þeir fara í gegnum þá erfiðleika sem af slysinu leiðir.

Eins og ég kom að í ræðu minni þá er mikil eftirspurn eftir að komast inn á þennan markað af einkatryggingafyrirtækjum, en svo verða menn náttúrlega að taka eftir því og skoða hversu marga fyrirtækin undanskilja þegar þau tryggja einstaklinga og hvað smáa letrið segir, vegna þess að þar eru skilyrði varðandi fjölskyldusögu og hin og þessi veikindi eða ef slys verða með hinum eða þessum hætti, þá eru menn ekki tryggðir fyrir því eða það kostar miklu meira. Það sem við erum að tala um að þurfi að breyta í slysatryggingalögunum er skilgreiningin á vátryggingaréttinum, þ.e. túlkunin er of þröng.

Ég vil að þetta séu almenn réttindi en ekki sérstök keypt réttindi. Ég vil samábyrgð á því að þetta þjóðfélag geti gengið og ég vil líta á þetta sem hluta af mannréttindum okkar. Við búum á Íslandi, við ætlum að tryggja okkur saman, við ætlum að bera ábyrgð hvert á öðru, þannig að við getum átt gott samfélag. Auðvitað er auðveldara að segja þetta en að framkvæma, en af því að við höfum verið að ræða þetta hér og rætt töluvert um öryrkja í tengslum við þetta, en örorka er auðvitað oft afleiðing af slysum, þá er Öryrkjabandalagið einmitt núna þessa dagana að berjast fyrir því og er að safna undirskriftum um að menn fullgildi núna í mjög markvissum og einföldum skrefum sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég styð þá ósk þeirra eindregið. Ég held að það sé kominn tími (Forseti hringir.) til að við förum í gegnum það, það snýst einmitt um mannréttindi og mannvirðingu.