144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[19:43]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru svo sem engar spurningar sem brenna á mér til hv. þingmanns. Það er augljóst og varð augljóst af því að gera þetta að sérstökum lagabálki að það þarf að blása nýju lífi í slysatryggingar og setja inn meiri fjármuni í þetta kerfi. Það sem gerist annars og er að gerast smám saman er að í stað þess að vera með vel fjármagnaðar opinberar tryggingar þá lekur þetta yfir í einkamarkaðinn. Við vitum alveg að stórir hópar gera sér ekki grein fyrir því hver réttur þeirra er og eiga annaðhvort á hættu að vera illa tryggðir og háðir þessu kerfi, sem er ófullnægjandi, eða allt of mikið tryggðir og borga inn í mismunandi tryggingafélög. Þetta er umhugsunarefni fyrir okkur á Alþingi. Þessar tryggingar eiga að vera opinberar og vel fjármagnaðar. Það verður okkar í stjórnarandstöðunni að fylgja því eftir að bráðabirgðaákvæðinu sem felur í sér að það eigi að endurskoða lögin innan tveggja ára verði fylgt eftir.

Það er líka áhyggjuefni að í því tríói sem þessi þrjú frumvörp sem voru lögð fram voru var ekki vilji til efnisbreytinga. Gott og vel, það er alveg hægt að segja: Ókei, hér er verið að gera formbreytingar og þess vegna þarf að fara með þessi frumvörp í gegn, það er verið að skýra lögin. — En svo þegar kom að því að rýra réttindi þá var minna mál að gera það án þess að að því kæmi sérstakur faghópur.