144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[19:46]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Ég tek undir það að í fyrsta lagi þurfum við náttúrlega að fylgja því vel eftir að þetta verði endurskoðað og kanna hvað standi út af og hafi ekki verið að gera sig, þá fyrst og fremst þessar skilgreiningar. Velferðarnefnd þarf að ýta á eftir því á þessu tímabili, þ.e. næstu tvö árin, að þá verði jafnvel búið að ljúka þeirri endurskoðun þannig að hægt verði að leggja málið fyrir innan tveggja ára, helst.

Auðvitað vitum við að það vantar fjármuni alls staðar. Ég hef mestar áhyggjur af því, eins og hv. þingmaður sagði, að það leki yfir í einkageirann. Ég hef áhyggjur af því fólki sem er á leigumarkaði með ofboðslegar lágar tekjur kaupi sér ekki neinar tryggingar yfirleitt. Það fólk er kannski líka þeir einstaklingar sem þekkja réttindi sín allra minnst af þeim sem við erum hér að fjalla um. Það finnst mér alla vega. Síðan þegar við fáum svona skýra mynd af því sem hér var tekið fram með vinnuslysin, þegar tilkynningar um þau skila sér ekki inn nema svo sáralítið að það er augljóslega eitthvað að, af hverju er ekki gerð tilraun til þess að leita lausna og leiða til þess að finna út úr því hvers vegna það er? Það hlýtur að vera skýring á því. Ég trúi ekki öðru en að Vinnueftirlitið sé ráðuneytinu til fulltingis, kjósi það það, til þess að gefa álit sitt á því hvað verður raunverulega til þess að tilkynningar skila sér ekki. Svo hljótum við að vilja hafa sambærileg réttindi við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum.